Þorrinn
Þorrinn hófst með þrálátri norðanátt, skafrenningi, ofankomu og erfiðri færð um allt norðanvert landið. Hversu oft hefur þorrinn ekki boðið upp á slíkt svona í stíl við súrmatinn og brennivínið? Það er gaman að blóta Þorrann en tilgangslítið að blóta Þorranum.
Það er nefnilega eiginlega alveg sama hversu mikið við hryllum okkur yfir snjókomu og kulda,- staðreyndin er sú að við búum á Íslandi, (ná) Skerinu, Landinu Bláa, og hver einasti vetur í Íslandssögunni hefur átt sína óveðurskafla. Íslendingar hafa fundið vanmátt sinn gagnvart náttúrunni og lært að bera virðingu fyrir þeim öflum sem geta án fyrirvara krafist bæði eigna og mannslífa. Allir heimsins snjóvarnargarðar og öll okkar vitneskja virðist ekki koma í veg fyrir það.
Áfram höfum við vissulega þraukað, lært að klæða okkur rétt, byggja góð hús, nýta jarðvarmann og komið okkur upp galdratækjum til að blása burt snjó og greiða okkur leið. Enn þarf samt að þreyja veturinn þrátt fyrir öll okkar þægindi. Enn lokast heilu byggðarlögin af í fannfergi og enn falla snjófljóð í þéttbýli og á þjóðvegi. Enn trufla veður og vindar okkar þægilega nútímalíf. En af og til glittir í bláan himin og auðvitað kemur að því að sólin brýst fram og fyllir þessa hvítu veröld af gulli og gersemum. Og þá verður aftur gaman. Árstíðirnar fara og koma og þó að syrti að þá birtir aftur til. Það klikkar ekki.
Ein góð frænka mín sem nú hefur kvatt okkur, keyrði eitt sinn norður til Akureyrar, með manni sínum í stórhríð og slæmu skyggni eftir vel heppnaða utanferð. Varð henni þá að orði -„guði sé lof fyrir vegastikur og visakort", en slík kort voru nýjung á þeim árum. Varð þetta að orðtaki í minni fjölskyldu, fleyg orð sem alltaf virðast eiga vel við. Enn þreyjum við því Þorrann og þökkum guði fyrir vegstikur og visakort.