Þöggunarmenning á Húsavík
Aldey Unnar Traustadóttir skrifar
Þöggunarmenning er þögult samþykki einstaklinga þar sem aðal markmiðið er að hlífa gerendum þannig að ákveðnir hlutir eru ekki ræddir. Þöggunarmenning getur átt við á mörgum stöðum og í mörgum myndum og hún getur magnast ef einhver reynir að rjúfa þögnina. Það sem gerist þegar þöggunarmenning er viðhöfð er að lítilsvirðing, valdaníðsla og ámælisverð hegðun viðgengist án þess að nokkur grípi inn í. Þöggunarmenning á Íslandi er svo rótgróin að oft sjáum við hana ekki einu sinni, jafnvel hrósum okkur fyrir hana.
Þegar fólk er beitt ofbeldi þá líður okkur illa, okkur finnst það óþægilegt og því er oft “auðveldast” að tala bara ekkert um það, eða það er það sem okkur hefur verið kennt. Vandamálið er hins vegar að það er ekkert auðveldara að tala bara ekki um það því að ef ofbeldi er samþykkt í samfélaginu þá getur það magnast og það verður erfiðara fyrir þolanda að segja frá. Það er lykilatriði í bataferli þolanda að geta sagt frá. Þörfin birtist á mismunandi hátt fyrir hvert og eitt okkar en þolendur þurfa að upplifa að þau megi segja frá.
Í litlum samfélögum verður þöggunarmenning oft enn flóknari því einhver þekkir einstaklingana sem um ræðir og því enn erfiðara að tala um það sem gerist. Húsavík er ekki undanskilin hér. Við höfum ótal mörg dæmi héðan þar sem ofbeldi hefur verið beitt og í kjölfarið gert lítið úr því og það þaggað vegna þess að gerandinn er svo “næs” eða svo flinkur í sinni stöðu að ekki má hrófla við neinu.
Ég segi flinkur í sinni stöðu vegna þess að í ár er áhersla Druslugöngunnar valdaójafnvægi. Í fjölmiðlum hefur mikið verið fjallað um góðu strákana, fótboltamennina, tónlistarmennina o.fl. en mig langar til að minna á að valdaójafnvægi birtist á margan annan hátt. Valdaójafnvægi má finna á vinnustöðum, í skólakerfinu, í fjölskyldum, í pólitíkinni og á fleiri stöðum. Valdaójafnvægi á nánast alltaf við þegar ofbeldi er beitt. Þess vegna þarf fólk sem að er í valdastöðu, sérstaklega í litlum samfélögum að vanda sig. Fólk þarf að taka ábyrgð, samfélagið þarf að taka ábyrgð og síðast en ekki síst, gerendur þurfa að taka ábyrgð. Við eigum ekki að samþykkja að fólk í valdastöðum nýti vald sitt til að brjóta á öðrum. Með þöggunarmenningu erum við ekki að hjálpa samfélaginu, við erum að hjálpa ofbeldis fólkinu.
Það er mikil þörf fyrir því að berjast gegn ofbeldi og það er mikil þörf fyrir að gera það hátt og snjallt. Því hvet ég ykkur öll til að mæta á Druslugönguna á Húsavík laugardaginn 23. júlí og hafa hátt. Hættum að samþykkja óviðunandi hegðun annarra, tölum um það, verum til staðar og ekki gera lítið úr upplifun annarra.
Aldey Unnar Traustadóttir, Húsvíkingur, femínisti og aktívisti