Þöggun

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Aldeilis að moldin fýkur í logninu - hugsaði ég þegar ég boraði niður í fundargerð bæjarstjórnar frá átjánda maí síðastliðnum.  Þar gróf ég upp ýmislegt sem tengist þeirri afdrifaríku ákvörðun bæjarstjórnar að breyta miðbæjarskipulaginu frá árinu 2014. Í samþykktinni ber hæst að hverfa frá því að gera miðbæinn vistvænan fyrir gangandi fólk en hefja bíla og þeirra þarfir til  öndvegis.  Þessi mikla stefnubreyting sést best í orðum sem fram koma í greinargerð með breytingunum þar sem segir að “fækkun gönguþverana er til að bæta umferðarflæði akandi eftir Glerárgötu… “

Sem sagt: Auka bílaumferð og hverfa frá fyrri stefnu að breyta götunni “í aðlaðandi bæjargötu” eins og segir í greinargerð með skipulaginu frá 2014. Nýju stefnunni er svo fylgt fast eftir með því að fækka þverunum fyrir gangandi fólk úr þremur í eina til þess eins að bílar geti ekið hraðar og greiðar í gegnum þetta hjarta miðbæjarins.  Tefja um leið greiða leið gangandi fólks niður að Pollinum og að Hofi.  Það var þó ein meginósk fjölmennasta íbúaþings landsins. Nú er þessari frómu ósk bæjarbúa hins vegar kastað á haf út án umræðu við þá.  Við það bætist að tillögu minni um að bíða til hausts og halda þá annað íbúaþing til að taka af skarið í málinu með íbúum er ekki einu sinni svarað; sorgleg staðreynd.

Bak við lokaðar dyr

Talandi um viðræður bæjarfulltrúa og íbúa í máli þessu komu fram í áðurnefndri greinargerð margar kvartanir um að samráð við þá hafi verið í skötulíki; fólki yfirleitt ekki ansað eða bara bent á að koma fram með skriflegar athugasemdir ef þeir vildu.  Í greinargerðinni (saminni af verkfræðistofu úti í bæ) segir að kynning hafi verið haldin á vefnum en ekki með bæjarbúum vegna fjöldatakmarkanna í þjóðfélaginu og þar að auki hafi gögn verið aðgengileg á heimasíðu bæjarins.  Sem sagt: Ekki hægt að ræða málið sem skyldi við bæjarbúa vegna veirunnar!  Þetta er einhver aulalegasta afsökun sem ég hef séð á því 20 ára ferli sem mál þetta hefur verið að velkjast í bæjarkerfinu. Sannleikurinn er sá að enginn – ekki einn einasti – bæjarfulltrúi gaf kost á að ræða þessar alvarlegu breytingar við almenning, hvorki beint eða í gegnum fjölmiðla eða önnur samskiptatæki sem þó hefði verið hægur vandi ef áhugi hefði verið fyrir hendi. Öll ráð í málinu voru brugguð bak við lokaðar dyr og almenningi ekki hleypt inn, öfugt við það sem gerðist í aðdraganda skipulagsgerðarinnar árið 2014.  Ekki kæmi mér á óvart ef Skipulagsstofnun - sem hefur síðasta orðið áður en breytingarnar taka gildi – geri athugasemdir við hvað samráð við almenning var lítið í þessum síðasta kafla ferilsins.

Sérkennilegt fréttamat

Svo vekur athygli gamals innanbúðarmanns að fjölmiðlar hér á svæðinu hafa enn (24.05) ekkert sagt frá þessari afdrifaríku ákvörðun bæjarstjórnar í síðustu viku. Í staðinn er slegið upp sem stórfrétt að einn aldraður bæjarfulltrúi muni ekki gefa kost á sér fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Enda þótt Gunnar vinur minn Gíslason sé hinn mætasti maður getur varla talist til stórtíðinda þó hann dragi sig í hlé frá erilsömum bæjarstjórnarstörfum.  En svona er fréttamatið misjafnt;  meiri tíðindum sætir þegar við gamlingjarnir drögum okkur í hlé heldur en þegar bæjarstjórnin breytir stefnu um vistvænan miðbæ í forgangssvæði fyrir mengandi farartæki.

Auk þess sýnist heldur ekki við hæfi að við ræðum í okkar ljósvakamiðlum álitamál í bænum. Forði okkur allir heilagir frá því.  En hefði samt ekki verið tilvalið að akureyskir fjölmiðlar hefðu síðustu misseri fengið menn og konur til að ræða sín á milli ýmis álitamál í sambandi við skipulag í bænum okkar?  Þar hafa ljósvakamiðlar bæjarins skilað auðu en eru þó fyrirtaks vettvangur til að skiptast á skoðunum, velta upp ýmsum flötum alvarlegra mála í samfélagi okkar og laða fram rök með og á móti einstökum lausnum. Finna með slíku spjalli jafnvel nýjar leiðir sem annars hefðu ekki komið fram.  Kemur veiran líka í veg fyrir það?! Eða eru einhverjir duldir hagsmunir í húfi sem ekki þola dagsljósið?

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður  

 

 

Nýjast