20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Þjóðbraut ofan Akureyrar
Ragnar Sverrisson skrifar
Fyrir skömmu kynnti ný ríkisstjórn málefnasamning þar sem loftlags- og umhverfismál eru sett á oddinn. Frá nýrri ríkisstjórn í Þýskalandi heyrist einnig að þar munu öll lagafrumvörp fara í gegnum “loftlagssíu" til að tryggja að ekkert verði samþykkt sem stríðir á móti markmiðum um vistvæna framtíð. Hér á Akureyri fer þróunin í allt aðra átt. Engin loflagssía, ekkert vistvænt mat, ekkert samráð við bæjarbúa þegar ákvarðanir voru teknar um verulegar breytingar á miðbæjarskipulaginu sem samþykkt var samhljóða árið 2014. Einasta einræður bæjarfulltrúa í trúnaði innbyrðis! Í þessum skrifum verður látið nægja að nefna eitt atriði í umræddum breytingum sem sannarlega stuðlar ekki að vistvænum miðbæ. Þvert á móti.
Óskapnaður
Í skipulaginu frá 2014 var gert ráð fyrir þremur göngubrautum yfir Glerárgötu fyrir vestan Hof. Greiðar leiðir fyrir gangandi vegfarendur þar sem fólk er í fyrirrúmi. Með ákvörðun sinni snéri bæjarstjórn þessu við og nú á aðeins að vera þarna ein gangbraut þvert yfir tvær akreinar. Þessar tvær akreinar eiga síðan að taka við bílaumferð af fjórum akreinum að sunnan og norðan. Beggja vegna gangbrautarinnar munu bílar bíða á reinunum fjórum og sæta lagi að komast áfram yfir tveggja akreina gangbrautina; standa í röðum með allar vélar í gangi og spúa mengun yfir fólkið sem þar er á ferð. Þetta verður því ekkert annað en umferðartappi, sannkallaður rembihnútur og það í miðjum miðbænum! Trúlega eitt mesta umferðarklúður í samanlagðri skipulagssögu bæjarins okkar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá bæjarfulltrúa til að ræða þennan óskapnað við bæjarbúa og útskýra hvað fyrir þeim hafi vakað gáfu þeir ekki kost á því. Fóru bara sínu fram. Nú er þessi framkoma við bæjarbúa í skoðun hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því ekki vonlaust að hægt verði að ná tali af bæjarfulltrúum um málið. Seint er fullreynt.
Ekki náttúrulögmál
Tækist nú að galdra fram málefnalega umræðu væri tilvalið að nota tækifærið og skoða grundvallaratriði málsins. Hingað til er eins og gengið hafi verið út frá því að samgönguæð Norðurlands verði að fara í gegnum miðbæinn og engu líkara en að það sé náttúrulögmál sem mannlegur máttur fær ekki breytt. Fyrir miðja síðustu öld var þessi akvegur í gegnum bæinn um Brekkugötuna. Um það leyti var byggð brú neðar yfir Glerá og því unnt að aka um Eyrina á leið norður úr bænum. Samt sem áður er heldur ekki lögmál að þar skuli þessi þjóðbraut liggja um aldur og ævi. Tímarnir breytast og nú er almennt viðurkennt að slík umferð eigi að vera utan þéttustu byggðar enda getur vistvænt miðbæjarlíf og hraðumferð í gegnum miðbæi aldrei farið saman. Þess vegna var hraðumferð beint fyrir ofan miðbæ Hafnarfjarðar, fram hjá Keflavík og í framtíðinni verður hún utan hins glæsilega miðbæjar Selfoss. Af sömu ástæðu er mikil nauðsyn á að ræða nú þegar kosti þess að færa umferð í framtíðinni, sem ætlar aðeins í gegnum Akureyri, upp fyrir bæinn. Það væri sannarlega bæði í samræmi við vistvæna skipulagsstefnu og nútíma íbúalýðræði.
Því ekki að tala saman?
Auðvitað ættum við Akureyringar að móta saman heildarsýn til framtíðar um þennan þátt skipulagsins og fylgja með því vistvænni þróun eins og framfarasinnuð bæjarfélög hafa tileinkað sér. Með þetta í huga hefur undirritaður lagt til að kallað verði saman annað myndarlegt íbúaþing þar sem bæjarbúar og sérfræðingar ræði þessi grundvallaratriði og hvernig þau verði útfærð. Þá mætti gera sér vonir um að bæjarbúar kæmust að sameiginlegum niðurstöðum eins og vel gafst á hinu fjölmenna íbúaþingi árið 2004. Að halda áfram að troða þjóðbraut í gegnum miðbæinn og búa til óleysanlega umferðarhnúta þar er hins vegar til marks um að bæjaryfirvöld láta sig vistvæna þróun skipulagsmála litlu varða. Vilja bæjarbúar það?
Ragnar Sverrisson
kaupmaður