Þjóð öfganna
Ég vil meina að við íslendingar berum að einhverjum hluta eiginleika landsins í okkur sjálfum. Kannski að hluta til arfur forfeðranna sem áttu allt sitt undir nátturunni. Þannig erum við svolítil öfgakennd. Ekki bara búum við á landi elds og ísa, heldur erum við þjóð elds og ísa. Við erum á einum tíma gædd hörku íssins, svolítið lokuð, köld og alveg hörkudugleg.
Við náum ótrúlegum árangri á ýmsum sviðum, með úthaldi og elju. Við tölum um veðrið daglega og gott ef við tengjumst því ekki töluvert líka. Hann er að bresta á með stórhríð. Það á að lægja á morgun. Það er einhver lægð yfir þessu. Ládeyða. Og svo framvegis. Við eigum líklega flest lýsingarorð allra þjóða yfir veður og ætti engan að undra, svona miðað við staðsetningu.
En það er ekki bara harkan sem er einkennandi fyrir íslendinga, heldur má vel merkja áhrif þessarar gulu á lundina.
Þannig brjótumst við hægt og rólega út úr vetrardvalanum, klakabrynjunni með hækkandi sól. Svolítið eins og við séum að endurfæðast, á meðan minningin um myrkur og kulda vetrarins hörfar og fellur í gleymskunnar dá. Svolítið eins og náttúran sjálf. Við finnum áþreifanlega hlýjuna þegar geislar sólar verma andlit okkar og bræða burtu hörku vetrarins. Sólin minnir okkur á að tilgangurinn er ekki bara að lifa af. Heldur að njóta líka. Lifa og njóta. Brosið breikkar og við finnum vonina vakna. Umræða dagsins verður léttari. Þetta verður allt í lagi. Það kemur vor og á endanum sumar. Eða eins og einhver orti: Sól úti, sól inni, sól í hjarta, sól í sinni, sól í sálu minni.