Það virðist skipta máli hvaðan tillagan kemur - Laust starf?

Framkvæmda- og þjónustufulltrúi Norðurþings mun láta af störfum 1. september næstkomandi.

Sú stjórnendastaða heyrir beint undir sveitarstjóra. 

Hjálmar Bogi

Undirritaður lagði til á byggðarráðsfundi að starfið verði auglýst laust til umsóknar og sveitarstjóra falið að leggja fram drög að starfslýsingu og auglýsingu fyrir næsta fund byggðarráðs.

Þessu hafnaði meirihluti og vísaði í bókun sinni að það væri ekki hlutverk kjörinna fulltrúa að hlutast til um starfsmannamál með vísan í 53. grein samþykkta Norðurþings um stjórn og fundarsköp þar sem kveðið er á um helstu verkefni sveitarstjóra.

Ef meirihlutinn hefði nú lesið 54. grein sömu samþykkta þar sem segir skýrt: „Byggðarráð ræður starfsmenn í þær stjórnunarstöður sem heyra beint undir sveitarstjóra, samkvæmt skipuriti sveitarfélagsins, að fenginni tillögu sveitarstjóra og auk þess yfirmenn stofnana og fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins sem heyra beint undir sveitarstjóra.”

Hvað vissu kjörnir fulltrúar meirihlutans um starfsmannamál?

Auk þess vísar meirihlutinn í vinnu sveitarstjóra varðandi tímabundna ráðstöfun þar sem núverandi starfsmaður sveitarfélagsins mun sinna starfi framkvæmda- og þjónustufulltrúa næstu mánuði. Það skal sagt að málið snýst ekki um fólk heldur að við kjörnir fulltrúar vinnum vinnuna okkar með sóma. En bíðum við; hvar voru fulltrúar meirihlutans upplýstir um þessa vinnu sveitarstjóra úr því að það er ekki hlutverk þeirra að hlutast til um og að ræða starfsmannamál? 

Hér má sjá tillöguna í heild sinni og bókun meirihlutans í málinu. Sjá fundargerð fundarins; https://www.nordurthing.is/is/stjornsysla/skjol-og-utgefid-efni/fundargerdir/byggdarrad-nordurthings/1533 

Hjálmar Bogi Hafliðason

Fulltrúi í Byggðarráði Norðurþings

 

Nýjast