Það er gott að gráta

Siggi Gunnars.
Siggi Gunnars.

Ég fór að gráta um daginn. Það er svo sem ekkert í frásögur færandi. Ég er mjúkur maður sem leyfir sér stundum að gráta, tilfinningabolti sem hlær mikið hlýtur líka stundum að gráta. Svo hefur mig líka alltaf grunað að það sé hollt og gott að gráta annað slagið. Við mannfólkið elskum allt sem er hollt, það er meira að segja í tísku að vera hollur. En þrátt fyrir það held ég að ansi margir, og þá kannski sérstaklega kynbræður mínir, leyfi sér ekki að gráta nógu oft. 

Um daginn grét ég eftir að manneskja var ósanngjörn við mig á ruddalegan hátt. Eftir þessa uppákomu grét ég smá í næði á meðan ég sagði góðum vini frá þessum viðskiptum mínum. Eftir grátinn fann ég fyrir létti og leið mun betur, miklu betur en ef ég hefði misst stjórn á mér á móti, æpt eða barið í borðið. Ég fór heilbrigðari út í daginn eftir þetta og í betra jafnvægi.

Í kjölfarið fór ég að lesa mér til á netinu, eins og maður gerir, og fann staðfestingar á þessum grunsemdum mínum. Grátur getur nefnilega verið margra meina bót og er í raun meinhollur. Í hófi, auðvitað, eins og allt annað. Það að gráta losar um spennu, sem oft hefur byggst upp í lengri tíma, og eftir grátinn losna endórfín út í líkamann sem láta okkur líða vel. Svo þarf maður líka bara stundum að viðurkenna að manni líði illa. Þá er grátur góð leið til þess að viðurkenna það fyrir sjálfum sér og hjálpar manni að halda áfram. Eflaust kemst maður í betri tengingu við sjálfan sig.

Svo sá ég líka að það er mun algengara meðal kvenna að gráta á meðan karlar halda frekar aftur af sér. Eflaust arfleifð einhverra hugmynda um að það sé ekki karlmannlegt að gráta. Sem er leitt. Af hverju ætti maður ekki að leyfa sér að gera eitthvað sem er ekki bara hollt og gott heldur kemur manni líka í sterkari tengingu við sjálfan sig? Ég allavegana næ ekki þeirri hugmyndafræði.

Grátum meira, munum að allt er gott í hófi og látum okkur líða vel. Ævin er alltof stutt til annars!

Siggi Gunnars

Nýjast