Svar við bréfi Einars
Í síðasta tölublaði Vikublaðsins beindi Einar Brynjólfsson til mín nokkrum spurningum sem varða rekstur hjúkrunarheimila í bænum. Áður en ég svara þeim vil ég nota tækifærið og leiðrétta misskilning sem gætt hefur í umræðu um þessi mál. Aðalatriðið er að sveitarfélögum í landinu ber ekki að annast rekstur hjúkrunarheimila. Það er hlutverk ríkisins lögum samkvæmt.
Á ári hverju hafa þau sveitarfélög sem ráku hjúkrunarheimili greitt um það bil einn milljarð af útsvarstekjum sínum með rekstrinum, eins og fram hefur komið í fréttum. Nú er svo komið að fæst af stærstu sveitarfélögum landsins hafa rekstur hjúkrunarheimila með höndum og önnur sveitarfélög hafa verið að skila rekstrinum til ríkisins síðustu misserin, eins og Fjarðabyggð, Höfn og Vestmannaeyjar. Öll voru þau í sömu stöðu og Akureyrarbær. Akureyrarbær rak Öldrunarheimili Akureyrar samkvæmt sérstökum samningi við Sjúkratryggingar Íslands og það reyndist bæjarsjóði og útsvarsgreiðendum dýrkeypt. Á síðustu 9 árum höfum við greitt 1,7 milljarð króna með rekstrinum eins og ítarlega var farið yfir á fundi bæjarstjórnar 16. febrúar sl. þegar öldrunarheimilin voru til umræðu.
Greitt hefur verið fyrir þennan hallarekstur með útsvari bæjarbúa en hefði með réttu átt að greiða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna allra, af skatttekjum ríkisins. Þessi 1,7 milljarður er án húsaleigu. Öldrunarheimili Akureyrar hafa verið einn stærsti vinnuveitandi bæjarins með um 320 starfsmenn og húsnæði á tveimur stöðum sem er samtals um 13.835 m². Þessi rekstur hefur sem gefur að skilja verið umfangsmikill og flókinn, ekki síst þegar horft er til eignarhluta sveitarfélagsins í húsnæðinu. Og þá fyrst fara málin að flækjast og hætt við að lesendur ruglist í ríminu. Þegar hjúkrunarheimili eru byggð greiðir ríkið 85% af stofnkostnaði og sveitarfélögin 15% skv. lögum. Reyndar er eignarhaldið í Hlíð alls konar þar sem ekki liggur endanlega fyrir hvor aðilinn hefur lagt meira fram í stofnkostnaði. Greining á þessu er nú í gangi.
Kostnaðurinn er skýrari varðandi Lögmannshlíð en sú bygging var byggð af Akureyrarbæ eftir svokallaðri leiguleið. Þar greiðir ríkið leigu vegna 85% eignarhlutar af fyrirfram greindu stofnkostnaðarverði byggingarinnar frá árinu 2010. Var það gert á þeim tíma er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafði um fjárfestingar ríkisins að segja. Þá „lánaði“ Akureyrarbær í raun ríkinu fyrir byggingunni. Ríkið greiðir Akureyrarbæ sinn 85% eignarhlut til baka á 40 árum. Í samningum um daggjöld til hjúkrunarheimila er einnig greitt húsnæðisgjald til að standa straum af kostnaði við rekstur húsnæðisins (fasteignagjöld, tryggingar og almennt viðhald). Ekkert húsnæðisgjald er greitt fyrir Lögmannshlíð vegna annars eignarhalds. Leigu, eins og rætt er um í grein Einars, er því ekki til að dreifa enda ekki leyfilegt að greiða eðlilega leigu fyrir húsnæði sem nýtt er fyrir hjúkrunarheimili, aðeins húsnæðisgjald. Um þetta hafa ríki og sveitarfélög og aðrir eigendur húsnæðis hjúkrunarheimila deilt í langan tíma. Allt meiriháttar viðhald á að koma úr Framkvæmdasjóði aldraðra en það hefur verið undir hælinn lagt hvenær þeir fjármunir koma.
Lausafjárleiga er reiknuð skv. 12 gr. reglugerðar nr. 1212/2015 og dreifir kostnaði við endurnýjun tækja og búnaðar á ætlaðan líftíma búnaðarins. Endurgreidd þjónusta sem færð er til bókar hjá ÖA er vegna miðlægs umsýslukostnaðar, s.s. launavinnslu, mannauðsmála, bókhalds, ársreikningsgerðar, innheimtu og greiðslu reikninga o.s.frv. ásamt þátttöku í stjórn ÖA. Til viðbótar við þennan kostnað koma einnig útgjöld, annars vegar hjá Fasteignum Akureyrarbæjar sem reka fasteignir ÖA og hins vegar úr aðalsjóði vegna kostnaðar sem er bókfærður vegna þjónustunnar sem veitt er til ÖA vegna viðhalds o.fl. Það er því villandi að slá því fram að eitthvað sitji eftir í bæjarsjóði og sé eitthvað sem bæjarsjóður greiði sjálfum sér, eins og fyrirspyrjandi kýs að orða það. Það er augljóst að 12 milljón króna umsýslukostnaður er lítið fyrir fyrirtæki sem veltir 3 milljörðum árlega. Ég tel að framansagt svari spurningum Einars sem allar lúta með einum eða öðrum hætti að rekstrarkostnaði og leigu húsnæðis. Því er við að bæta að nýr rekstraraðili mun bera allan beinan rekstrarkostnað af fasteignunum á Hlíð, þ.m.t. viðhald á búnaði og minniháttar viðhaldi á fasteign. Sá aðili greiðir ekki leigu til eigenda húsnæðisins.
Akureyrarbær á í viðræðum við ríkið um meðhöndlun á húsnæðinu í framhaldinu og er ekki fyllilega ljóst hvort bærinn muni bera kostnað af eignarhaldi húsnæðisins til framtíðar en eðli málsins samkvæmt þá getur það ekki verið hlutverk bæjarins að leggja til húsnæði endurgjaldslaust í verkefni sem ríkið á að kosta og fjármagna. Rekstur hjúkrunarheimila í sveitarfélaginu er ekki lengur á höndum Akureyrarbæjar. Það var að sjálfsögðu alfarið á ábyrgð Sjúkratrygginga Íslands og ríkisins að semja við nýjan rekstraraðila og Akureyrarbær kom hvergi nærri því ferli. Við erum hins vegar sannfærð um að reksturinn sé í góðum höndum.
-Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri