Sumar í samfélagi?
Covid er farið og lóan er komin. Í það minnsta er manni farið að líða eins og Covid hafi verið slæmur draumur þótt auðvitað sé enn ekki útséð um afdrif veirufjandans. Batamerkin í þjóðfélaginu eru ýmiskonar. Nýliðnir bíladagar með tilheyrandi næturhávaða voru næstum því kærkomnir og eitt lítið skemmtiferðaskip við Eimskipafélagsbryggjuna gladdi hjartað. Auglýsingar um tónleika og allskyns atburði sem einu sinni voru sjálfsagðir fylla samfélagsmiðlana, fólk þyrpist út í sumarið og það er bjartsýni í loftinu.
En það eru líka margir sem eiga þung spor áfram inn í framtíðina. Margir hafa misst vinnu og lífsviðurværi og veikindi hafa markað lífið. Við þurfum á því að halda að samfélagið standi saman og létti okkur þessa baráttu. Það er hlutverk ríkis og sveitarfélaga að hafa velferð þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Því er það þyngra en tárum taki að vita til þess að þetta sama samfélag hafi þótt það sæmandi að láta frá sér umönnun og velferð þeirra elstu og veikustu. Látið það frá sér í hendur aðila sem munu ekki sætta sig við annað en ágóða af rekstrinum og byrjar á því að losa sig við fólk sem sannarlega hefur þjónað samfélaginu af trúmennsku. Fólk sem hefur þekkingu og reynslu á að annast gamla og veika og þekkir þarfir þeirra.
Fólk sem er komið nálægt starfslokum og á litla möguleika á að fá aðra vinnu. Það er ljótt. Hagvöxtur komandi daga má ekki byggjast á því að við losum okkur við alla þá sem ekki eru hagstæðir hinu hagnaðardrifna líkani. Við erum ekki þannig samfélag eða svo er allavega sagt í hátíðarræðum stjórnmálamanna. Hysjum upp buxurnar og styrkjum nú heilbrigðis og velferðarkerfið. Það eru til peningar, við þurfum bara að fara að útdeila þeim af meiri ástúð og umhyggju fyrir náunganum. Góðar stundir.