20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Styrkur samfélags er samhugurinn
Eftirfarandi grein birtist fyrst sem leiðari í Skarpi fimmtudaginn 14. júní.
Þá er ég mættur enn og aftur lesendur góðir þrátt fyrir loforð um það að vera hættur og horfin á braut. Heimsmeistarakeppni í fótboltasparki er rétt í þann mund að hefjast og ritstjórinn þarf sitt frí. Þið sitjið því uppi með mig næstu fimm vikurnar og við getum þá allt eins reynt að gera eitthvað gott úr því.
Í Skarpi vikunnar er m.a. að finna ítarlegt viðtal við eina bestu fyrirmynd sem Húsavík hefur átt, lifandi goðsögnina Villa Páls. Í viðtalinu fer Villi yfir sögu Björgunarsveitarinnar Garðars og það vekur mann til umhugsunar um mikilvægi samhugs og samtryggingar í litla samfélaginu okkar hér á Húsvík. Björgunarsveitin eins og fram kemur á allt sitt undir velvilja fólksins í samfélaginu. Án stuðnings einstaklinga, fyrirtækja og félagssamtaka myndi Björgunarsveitin Garðar einfaldlega hætta að vera til. En, svo er nú aldeilis ekki. Þökk sé dyggum stuðningi samfélagsins eiga Húsvíkingar vel útbúna og vel mannaða björgunarsveit.
Það má nefna að í gegnum tíðina hafa fiskiútgerðir í bænum, stórar og smáar verið sérstaklega duglegar við að styðja við þetta starf. Enda hafa útgerðarmenn löngum vitað það að þeir geta hvenær sem er lent í því að vera með lífið í lúkum björgunarsveitarmanna. Nú er reyndar orðin sú breyting orðin að fiskiútgerðirnar eru nær alveg horfnar úr plássinu en þeirra í stað eru komnar annars konar útgerðir, sem einnig róa á haf út og eru ekki síður öflugar. Þær láta eflaust ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að styðja við bakið á björgunarsveitinni, hér eftir sem áður.
Sólstöðuhlaup Völsungs
Fyrir Ívar Hrafn
Erfið veikindi leggjast ekki aðeins á einstaklingin sem fyrir þeim verður, þau leggjast á alla fjölskylduna og stundum á allt samfélagið. Mín versta martröð sem foreldris er að eitthvað komi fyrir börnin mín. Ég get varla gert mér í hugarlund hvernig það er að horfa upp á barnið mitt alvarlega veikt, vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og geta ekkert gert til að hjálpa barninu nema elska það og vera til staðar. Þess vegna er það óhugsandi ef foreldrar í slíkri stöðu þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur vegna vinnutaps, ferðalaga á milli landshluta til að koma barni sínu á sjúkrahús, gistingar og uppihalds,- í landi allsnægtanna.
Sumarsólstöðuhlaup Völsungs fer fram fimmtudagskvöldið 21. júní n.k. klukkan 20. Þá gefst okkur sem samfélagi tækifæri til að sýna samhug í verki því ágóði hlaupsins rennur óskiptur til styrktar litlum fallegum dreng, Ívari Hrafni Baldurssyni sem hefur glímt við erfið veikindi frá fæðingu með tilheyrandi kostnaði. Ekki nóg með það, því Íslandsbanki mun styrkja drenginn um aðra eins upphæð og safnast með skráningargjöldum þátttakenda.
Skráning fer fram á hlaup.is til miðnættis 20. júní og er skráningargjaldið 2000 krónur. Einnig er hægt að skrá sig á staðnum frá klukkan 19 á hlaupadag en þá hækkar þátttökugjaldið í 3000 krónur.
Ég skora á alla, einstaklinga og fyrirtæki til að sýna samhug í verki, skrá sig til þátttöku hvort sem þið ætlið að hlaupa, ganga eða einfaldlega horfa á. Margt smátt gerir eitt stórt. Samhugur er það fallegasta og sterkasta sem samfélag getur átt.
Egill P. Egilsson ritstjóri Skarps í afleysingu