Sitthvað um Glerárbrýrnar
Eftir því hefur verið tekið að gamla Glerárbrúin, sem einu sinni var þjóðleiðin inn í bæinn og byggð var fyrir um 100 árum, hefur ekkert viðhald fengið síðustu mörg ár og er í skelfilegu og ömurlegu ástandi. Töluverð umferð er enn um brúna, t.d. gangandi og hjólandi vegfarendur og þó ekki væri annað en að halda þessu gamla mannvirki við í þokkalegu ástandi, sem þjónaði landsmönum öllum í áraraðir, væri það bara til sóma þeim sem um þetta eiga að sjá.
Ekki hefði t.d. verið úr vegi að nota nokkrar krónur af þeim hundruðum milljóna, sem fóru í umframeyðslu við svokallað Listasafn og eða kaffistofu upp á tugi milljóna, sem virðist hafa verið byggð upp á punt fyrir listaelítuna, og er nú auglýst til leigu vegna þess að sagt er að ekkert er þar að gera, enda um 8-10 kaffihús í næsta nágrenni. Fyrrverandi bæjarfulltrúi, sem var mjög ötull í starfi í sinni tíð í bæjarstjórn og var vanur að láta hendur standa fram úr ermum, tjáði mér að staðið hefði til að gera umbætur á brúnni en þá kom til skjalanna peningamafían, sem hvað upp úr með að 20 milljónir kostaði bara að útfæra lagfæringarnar sem hvert leikskólabarn hefði getað sagt fyrir um.
Nýja Glerárbrúin
Gangandi vegfarendur um nýju brúna þessa, sem tengir Glerárgötu og Hörgárbraut, hafa kvartað undan því að ekki eru sett handrið á gangstéttina, sérstaklega vestan megin á brúnni akbrautarmegin. Þarna sé mikil hætta á ferðum, t.d. á veturnar þegar um snjó og hálku er að ræða að fólki skriki fótur og hættan er þá sú að renna út í akbrautina og verða fyrir næsta bíl.
Hjörleifur Hallgríms
Minni hætta er austan megin á brúnni þar sem gangbrautin er þó ívið breiðari, en hætta samt og væri gott að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir þar líka og koma þar einnig upp handriði. Ekki veit ég hvort er við bæjarstjórn að sakast eða Vegagerðina, en brýnt er verkefnið samt og hef ég þá
trú að bæjarstjórnin hafi eitthvað um málið að segja eins og þegar að sett voru upp viðvörunarljós við gangbraut rétt norðar. En auðvitað ekki gert fyrr en slys hafði orðið. En nægur tími er enn til að setja upp handriðin fyrir næsta vetur. Það er nefnilega of seint að birgja brunninn þegar barnið er dottið ofaní.
Og að allt öðru
Eins og flestir vita voru nýverið gerðir kjarasamningar, svokallaðir lífskjarasamningar, þar sem verkafólk og aðrir, sem hafa skammarlega lítið á milli handanna til að lifa af, fengu nokkra kjarabót. Þessir samningar þóttu takast nokkuð vel en ofsjónum sáu nokkrir atvinnurekendur yfir þeim nokkrum krónum sem láglaunafólkinu áskotnaðist og voru fljótir að taka til sinna ósvífnu ráða, m.a. í sambandi við kaupgreiðslur og jafnvel uppsagnir á starfsfólki. Einnig voru sumir í bakarastétt a.m.k. að hluta staðnir að því að áður en blekið var þornað af samningum höfðu þeir hækkað brauðmetið um 6-7% - og það án þess að skammast sín.
Kristjánsbakarí hér í bæ er ekki undanskilið, enda ekki lengur í eigu Akureyringa því það var selt fyrir nokkrum árum til sunnanmanna. Hér vil ég taka skýrt fram að Kristjánsbakarí var stofnað af athafnamanninum Kristjáni heitnum Jónsssyni og var rekið hér á Akureyri í 104 ár af miklum myndarskap af honum og síðar syni hans Snorra og en síðar af sonum Snorra, þeim Birgi og Kjartani, þar til fyrirtækið var selt eins og fyrr segir. Fólk fór að velta þessum brauðhækkunum fyrir sér og þá kom í ljós að Axelsbakarí hér í bæ hafði ekki tekið þátt í þessum ljóta leik.
Undirritaður fór að kynna sér málið og komst að raun um að Axelsbakarí selur mjög góð matarbrauð, m.a. á ekki uppsprengdu verði og fást þau líka víðar. Ekki væri úr vegi að Verkalýðssamtökin og Neytendasamtökin gæfu þessu meiri gaum.