Réttindi launafólks á óvissutímum

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Hertar reglur um takmarkanir á fjölda fólks á almannafæri tóku gildi um síðustu helgi, baráttunni við veiruna skæðu er hvergi nærri lokið. Allar takmarkanir hafa viðtæk áhrif á daglegt líf okkar og vinnumarkaðinn. Samstaða er það sem gildir þessa dagana og störf framlínufólks eru ómetanleg á þessum erfiðu tímum.

Atvinnuleysi hefur aukist verulega á síðustu vikum og mánuðum og þessar síðustu aðgerðir auka enn frekar erfiða stöðu. Við þetta bætist að atvinnuhorfur eru dökkar, sem þýðir að atvinnulausum fjölgar í vetur.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram vel ígrundaðar tillögur á undanförnum misserum með það að markmiði að milda höggið. Ég er sannfærður um að með réttum vinnubrögðum getum við bætt mannauðinn og byggt upp lífskjör og verðmæti í kjölfar faraldursins.

Réttindi launafólks

Í slíku umhverfi reynir á hagsmunamál launþega. Einn helsti tilgangur Einingar Iðju er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra og vinna að fræðslu- og menningarmálum. Ég hvet því alla félagsmenn til þess að kynna sér vel hvaða þjónusta er í boði hjá félaginu og huga jafnframt að réttindum sínum. Atburðarrásin í kringum útbreiðslu „Covid“ hefur verið hröð og þess vegna er skynsamlegt að hver og einn hugi að sínum málum í tíma.

Hlutabótaleiðin og ráðningarsambandið

Hlutabæturnar sem voru samþykktar á fyrsta ársfjórðungi heimiluðu Vinnumálastofnun að greiða tímabundið hlutabætur atvinnuleysistrygginga á móti minnkuðu starfshlutfalli. Í fyrstu giltu lögin um hlutabætur til loka maí, en hafa nú verið framlengd út árið. Hlutabótum er ætlað að bregðast við mikilli óvissu í starfsemi fyrirtækja, koma í veg fyrir uppsagnir og verja ráðningarsamband launafólks og launagreiðenda. Með hlutabótaleiðinni geta atvinnurekendur og launþegar gert með sér samkomulag um tímabundið skert launahlutfall með fjárhagslegri aðkomu Vinnumálastofnunar. Þetta fyrirkomulag hefur á margan hátt gefið góða raun og ráðningarsambandið helst. Þannig halda launþegar öllum sínum réttindum.

Öflugir bakhjarlar

Ýmsir sjóðir stéttarfélaga gegna afar mikilvægu hlutverki, ekki síst á óvissutímum. Gott dæmi um öflugan bakhjarl félagsmanna Einingar-Iðju er sjúkrasjóður, sem hefur það hlutverk að mæta að miklu leyti tekjutapi félagsmanna vegna tímabundinna veikinda með greiðslu sjúkradagpeninga. Sjóðurinn endurgreiðir hluta af kostnaði félagsmanna meðal annars vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, sjúkranudds, viðtala við sálfræðinga, krabbameinsleitar, gleraugnaglerja og heyrnartækja.

Fyrstu níu mánuði ársins greiddi sjúkrasjóðurinn 115 milljónir króna til félagsmanna og má búast við að heildargreiðsla ársins verði í kringum 160 milljónir. Réttur til dagpeningagreiðslna stofnast með greiðslu iðgjalds til félagsins. Þess vegna er mikilvægt að félagsmenn fylgist vel með að á launaseðli komi fram að vinnuveitandinn sé að greiða félagsins. Sjóðir Einingar Iðju eru öflugir bakhjarlar og ég hvet félagsmenn til að kynna sér réttindi sín.

Hurðin verður læst en samt verður opið

Óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegar aðgerðir, velferð félagsmanna og starfsmanna er í fyrirrúmi. Þess vegna hefur aðgengi að skrifstofum félagsins verið takmarkað verulega og fjarþjónusta verður í öndvegi. Starfsfólkið verður engu að síður á sínum stað og mun sinna erindum félagsmanna í gegnum síma og tölvupóst á hefðbundnum opnunartíma. Starfsfólkinu hefur verið skipt upp í tvo hópa, annar sinnir störfum sínum á skrifstofunni og hinn heima.  Þannig er reynt að koma í veg fyrir hugsanlega skerðingu á þjónustu við félagsmenn. Hurðin verður sem sagt læst en samt verður opið.

Framtíðarsýnin?

Ég held að við getum gert ráð fyrir að ekki náist að ráða endanlega niðurlögum „Covid“ fyrr en að mörgum mánuðum liðnum, kannski árum. Við bindum miklar vonir við bólusetningu, en við erum tengd og háð öllum heiminum og víða eru viðhorf til heimsfaraldursins allt önnur en okkar. Það er ljóst er að stjórnvöld standa frammi fyrir afdrifaríkum ákvörðunum. Allar ákvarðanir sem teknar verða, hafa áhrif til framtíðar. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til þess að hafa verkalýðshreyfinguna með í ráðum og hreyfingin mun ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum og standa vörð um hagsmuni launafólks.

Við erum öll almannavarnir !

Stöndum saman !

-Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.

 

Nýjast