20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ráðhús á nýjum stað
Töluverð umræða hefur farið fram um ráðhús Akureyrar og staðsetningu þess. Ástæðan er sú að Landsbankahúsið við Ráðhústorg er til sölu og í því sambandi hefur verið stungið upp á að bærinn keypti það, breytti og bætti og gerði síðan að ráðhúsi við samnefnt torg. Fram hafa komið efasemdir um þá tillögu og bent á að hún yrði bæði dýr og óhagkvæm enda húsið gamalt og þarfnast mikilla endurbóta til þess að uppfylla kröfur sem gera verður til nútíma stjórnsýsluhúss.
Aðrir benda á að fyrir liggi útfærsla á núverandi ráðhúsi sem ærinn peningur fór í á sínum tíma með arkitektasamkeppni. Nærtækara væri að koma þeim hugmyndum í framkvæmd en það yrði þá enn ein viðbótin við gömlu slökkvistöðina sem mörgum þykir ekki síður flókið og dýrt verkefni. Mikil óvissa yrði með hagkvæmnina þegar upp væri staðið enda þarf að breyta gömlu húsi og tengja það nýjum álmum á tiltölulega þröngu svæði sem gefur auk þess litla möguleika á myndarlegri byggingu sem ráðhús þarf að vera til að standa undir nafni.
Þess vegna leyfir undirritaður sér að stinga upp á þriðja valkostinum sem mér vitandi hefur ekkert verið skoðaður eða ræddur. Þar sem ekki er búið að ganga endanlega frá skipulagi svæðisins sem losnar þegar gamli íþróttavöllurinn verður lagður niður, væri kjörið að útfæra þar nýtt og myndarlegt ráðhús. Af mörgum ástæðum yrði það hagkvæmt fyrir nútíma stjórnsýslu því engu þarf að breyta og ekkert að lagfæra – einasta hanna og byggja nýtt hús frá grunni í samræmi við nútímakröfur. Á þessum frábæra stað yrði nýtt ráðhús miðpunktur og glæsilegt þriðja tákn bæjarins í viðbót við kirkjuna og Hof sem gegnt hafa því hlutverki með sóma síðustu árin. Síðan mætti koma fyrir íbúðabyggð í kring, verslunum og öðrum þjónustufyrirtækjum sem saman gætu myndað tengingu milli núverandi miðbæjar og Glerártorgs. Ráðhúsið yrði þá miðsvæðis í öllu því iðandi mannlífi sem stærri miðbær yrði í framtíðinni frá Torfunefi norður að Glerá. Auðvelt yrði að útfæra torg fyrir framan húsið ef vilji er til – raunverulegt Ráðhústorg - og gera umhverfið þar aðlaðandi og vinsælt fyrir gesti og gangandi.
Ljóst er að bærinn stendur frammi fyrir mjög álitlegu tækifæri sem ekki gefst aftur ef það verður ekki nýtt núna. Gríðarlega mikilvægt er að svæðið, sem íþróttavöllurinn hefur verið á síðustu sjötíu árin, verði útfært þannig að sómi sé að. Að mínum dómi færi best á að gera það að miðpunkti mannlífs í lifandi miðbæ sem einnig hýsir stjórnsýslu bæjarins. Þarna væri hægt að byggja ráðhús frá grunni á mjög góðu byggingarlandi og ekki þörf á að eyða gríðarlegum fjármunum bæjarbúa til að fjarlægja, laga eða breyta eldra húsnæði.
Að þessu sögðu hvet ég til málefnalegrar umræðu meðal bæjarbúa um ofangreinda tillögu. 0pin umfjöllun um svo mikilvægt málefni er nauðsynleg og gæti leitt til farsælla lausna sem bæjarbúar munu svo gleðjast stoltir yfir þegar allt verður komið í kring og við blasir glæsilegt og hagkvæmt ráðhús Akureyrar í hjarta bæjarins.
Ragnar Sverrisson kaupmaður