Pistill um allt og ekkert
Ég á fjögur uppkomin börn. Tvær stelpur og tvo stráka. Tvö þeirra eru með ADHD og hin tvö ADD. Það hefur verið mjög lærdómsríkt og þroskandi að ala upp börnin mín. Læra að skilja að þau hugsa ekki eins og ég. Þegar við vorum öll yngri átti ég erfitt með að skilja hegðun þeirra og hugsunarhátt á stundum. En með þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um, sérstaklega ADHD, hef ég öðlast þann skilning og umburðarlyndi sem mig skorti í upphafi.
Og það sem meira er: Fólk með ADHD er sérlega fjörugt og skemmtilegt. Þau hugsa hratt, vinna hratt og hafa frjótt ímyndunarafl. ADD börnin mín eru öllu rólegri í fasi og oft andlega fjarverandi en hafa virkilega góðan húmor og mikla færni í því sem stendur hjarta þeirra næst. Stundum hef ég beðið börnin (unga fólkið), ef þau eru mjög annars hugar, að endurtaka það sem ég segi við þau – við lítinn fögnuð.
Við getum þó gert góðlátlegt grín að þessum „röskunum“. Þau eru t.d. mjög gleymin. Þegar þau kveðja og fara út í bíl er t.d. betra að standa áfram í forstofunni því þau koma oftast einu sinni, jafnvel tvisvar til baka til að ná í það sem þau gleymdu inni, s.s. síma og bíllyklum.
En stundum get ég ekki setið á mér að reyna á þolrif þeirra. Á undanförnum mánuðum hef ég skrifað þremur þeirra mjög löng skilaboð – um ekkert. Bara til að athuga hvort þau lesi skilaboðin til enda. Þau hafa gert það öll þrjú. Ástæðan gæti verið eðlislæg forvitni þeirra. En einnig fyrir kurteisissakir þar sem þau eru eflaust að reyna að átta sig á hvað ég ætla raunverulega að segja þeim – sem er ekkert. En þau hafa húmor fyrir þessu. Ég veit það.
Að þessu sinni ætla ég að skrifa almennan pistil um ekkert. Ekki stílaðan á neinn, engin hugmynd að byggja á. Bara það sem mun koma upp í hugann:
Ég svaf lengur en ég ætlaði í morgun. Það þýðir að dagurinn er styttri og ég mun gera minna. Eins og vanalega hrasaði ég um kettina þegar ég kom fram. Þeir þurfa jú sinn mat, vatn, mjólk klapp, klór, komast út, komast inn aftur ... Ég sinni þeim eftir bestu getu, fagna því í huganum að þau tali ekki mannamál því þá væri ég þræll duttlungafullra harðstjóra á eigin heimili. Ég tek mig til í vinnuna. Fer út í bíl, sem er alltaf skítugur. Ég þríf ekki bílinn minn að utan. Til hvers? Hann verður strax aftur jafn skítugur. Hins vegar er ekki rusl inni í bílnum. Akkúrat núna eru þar einnota hanskar, gríma og sótthreinsiklútar. Svolítið í takt við tíðarandann. Fyrir ári síðan hefði þetta þótt nokkuð ískyggilegur búnaður fyrir hinn almenna borgara að hafa í bílnum hjá sér.
Á leiðinni þurfti ég að stoppa á rauðu ljósi og einnig við gangbraut til að hleypa gangandi vegfaranda yfir götu. Mér finnst það allt í lagi. Ég er þolinmóð. Skil ekki þegar fólk er hamslaust af bræði í umferðinni af því að einhver ekur of hratt, of hægt, of nálægt, er of gamall, of ungur eða ekki nógu viðbragðsfljótur að koma sér af stað þegar græna ljósið birtist.
Ég kem í vinnuna. Það er búið að hita kaffi. Auðvitað. Ég er í seinna fallinu og Jakob hollvinur Iðnaðarsafnsins er þegar búinn að fá sér bolla. Fyrir framan hann liggur poki með heimabökuðum múffum. Konan hans bakar ljúffengar múffur og sendir Jakob með þær inn á safn. Ég hrekk í karakter kattanna minna og bið um eina – kinnroðalaust.
Um hádegið fer ég í Bónus. Kettirnir að verða matarlausir og svona. Ég set á mig einnota hanskana sem ég geymi í bílnum og sting bláum Nettó-plastpoka í vasann. Löngu búin að týna öllum fjölnota innkaupapokunum mínum og hef nú tekið ástfóstri við þennan bláa, þreytulega plastpoka. Inni í Bónus tíni ég ýmsan varning í körfu og ekkert merkilegt við það. Það er það sem maður gerir í Bónus. En svo rek ég augun í sólgleraugu á rekka. Ég er búin að týna öllum sólgleraugunum mínum og hef þráast við að kaupa ný. Ég vel ein af handahófi og þegar ég hafði fengið afgreiðslu bað ég strákinn sem afgreiddi mig að klippa miðann af þeim fyrir mig. Hann tók undrandi við gleraugunum og sagði að hann hefði ekki skannað þessa vöru. Ég hafði bara þrammað með sólgleraugun í gegn án þess að gera mér grein fyrir því. Ég get víst líka verið andlega fjarverandi, týnt og gleymt. Ég afsakaði mig og borgaði gleraugun. Strákurinn á kassanum leit á mig augnaráði sem sagði: „Ég er búinn að heyra allar þessar afsakanir og ég trúi þér ekki“. Með það fór ég út úr búðinni með bláa Nettópokann, bleik sólgleraugu og kolsvart orðspor.
En vinnan já. Ég er alltaf meira og minna með hugann við hana. Framundan er m.a. skipulagning viðburða safnsins á Listasumri og Alþjóðlegi safnadagurinn, sem að sjálfsögðu verður rafrænn þetta árið. Skráningar, móttaka safngripa, rannsóknarvinna, móttaka skólahópa, og allt það sem gert er á söfnum.
Maðurinn sem gaf mér múffur með morgunkaffinu tók vaktina á Iðnaðarsafninu seinnipart dags og ég vann þennan pistil um allt og ekki neitt.
Einhverju sinni var mér sagt að engar fréttir væru góðar fréttir. Oft er það einmitt raunin. Viðburðasnauður dagur er góður dagur í mínu lífi. Engar slæmar fréttir, engin óhöpp eða óvæntar uppákomur. Ég má vel við una.
Góðar stundir
Elísabet Ásgrímsdóttir, skapandi þúsundþjalasmiður og stuðningsfulltrúi hefur tekið áskorun minni um að skrifa næsta pistil.
-Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir