Öryggið í óvissunni

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Huld Hafliðadóttir skrifar:


 

Það er eitt við mannlega hegðun sem breytist vonandi aldrei. Það er að við getum stólað á hana sem rannsóknarefni í fortíð, nútíð og framtíð. Bandaríski sálfræðingurinn B.F. Skinner var hvað þekktastur fyrir áhrif sín á hegðunarsálfræði og sjálfur kallaði hann aðferðafræði sína róttæka hegðunarhyggju. Hann gekk svo langt að segja að það væri ekkert til sem héti frjáls vilji og að allar gjörðir mannanna væru hrein og bein afleiðing skilyrðingar. Hvort sem fótur er fyrir skoðunum hans eða ekki, kom hann upp í huga mér um daginn.

Það sem vakti Skinner tenginguna voru orð konu sem ég hitti fyrir tilviljun þar sem við ræddum afléttingu grímuskyldu og hvernig okkur gengi að stíga skrefin út úr ógninni. Við ræddum að ógnin væri í raun afar lítil, en konan sagðist samt vilja halda áfram að heyra smittölurnar.

Mér fannst það merkilegt og velti fyrir mér hvort við finnum jafnvel öryggi í óvissunni. Rétt eins og fólk finnur öryggi í því sem það þekkir, þó það sé beinlínis skaðlegt, eins og kvíða, ótta eða ofbeldi, en þar sem það er svo kunnuglegt að þá getur tilhugsunin um að glata því orðið jafnvel enn meira ógnvekjandi. Einmitt þannig var upplifun mín fyrir tæpum 20 árum, þegar ég sat meðvirkninámskeið fyrir aðstandendur alkóhólista og fann hvernig króníski kvíðahnúturinn sem ég hafði haft í maganum frá því ég mundi eftir mér, leystist upp. Það kom upp ákveðinn ótti, í raun kvíði yfir því að kvíðahnúturinn skyldi hverfa. Hvað nú? Hvað kæmi mögulega í staðinn? Hvaða tómarúm er nú þar sem hann var áður? Allt þetta ýtti undir þá hugsun að kannski væri bara betra að fá gamla góða kvíðahnútinn aftur. Blessunarlega náði ég að horfa útyfir gömlu skilyrðinguna; og sá að það yrði vissulega skrítið að venjast nýjum og heilbrigðari veruleika, en það yrði án efa óþægindanna virði.

 

Nýjast