„Opinmynntur og steinhissa tók hann við vendinum”
Ingólfur Sverrisson skrifar
Einvalalið kennara starfaði við Barnaskólann eina á Akureyri um miðja 20. öldina. Ekki nóg með að þeir sinntu starfi sínu þar af mikilli kostgæfni heldur voru margir þeirra þekktir í bænum vegna annarra starfa sem þeir unnu að í frístundum. Nægir að nefna stjórnendur skólans þá Hannes J. Magnússon og Eirík Sigurðsson sem gáfu út barnablaðið Vorið og naut vinsælda um allt land, Örn Snorrason sem skrifaði metsölubókina “Þegar við Kalli vorum strákar,” Tryggva Þorsteinsson skátahöfðingja og Björgvin Jörgensson en hann stjórnaði Barnakór Akureyrar sem söng oft í óskalagaþáttum útvarpsins en í þá daga varð ekki komist öllu lengra.
Á þessum tíma kom ungur og vaskur kennari til skólans sem kenndi myndlist og leikfimi. Hann hét Einar Helgason og sagður að austan. Fljótt ávann hann sér hylli okkar nemenda enda ákaflega hvetjandi kennari hvort heldur hann fræddi okkur um leyndardóma myndlistarinnar, leikfimi eða aðrar íþróttir. Hann sýndi okkur oft sjálfur hvernig gera átti leikfimiæfingar af slíkri fimi, krafti og list að við supum hreinlega hveljur. Enn jókst álit okkar á honum þegar orðstír hans í marki knattspyrnuliðs ÍBA barst langt út fyrir bæjarmörkin.
Það vakti strax mikla athygli meðal okkar bekkjarsystkina í 43-árganginum þegar fréttist að Einar hefði trúlofast glæsilegri konu sem var líka íþróttakennari við skólann. Þar var komin til sögunnar Ásdís Karlsdóttir. Árgangurinn var samdóma um að með þessum ráðahag hafi komið fram eitt glæsilegasta og gæfulegasta par seinni tíma. Því væri ástæða til að fagna og Helga Haralds í Brauns-verzlun safnaði liðinu saman og komst einhvern veginn yfir forláta blómvönd. Með hana og vöndinn fremsta í flokki örkuðum við í tugatali eitt hádegið í halarófu niður í bæ. Rögnvaldur kammerráð vinkaði okkur glaðlega þar sem hann stóð fyrir framan höfuðstöðvar sínar undir kirkjutröppunum. Ægir Hjartarson var við blaðavagninn sinn á kaupfélagshorninu og tók upp sjónaukann góða til að skoða hvaða flóðbylgja þetta væri en róaðist þegar hann sá að hér voru aðeins á ferð kátir krakkar í einhverri óvissuferð. En engin óvissa var í okkar huga hvert ferðinni var heitið því hersingin hélt rakleitt yfir Hafnarstrætið, framhjá Vöruhúsinu og að húsinu númer eitt hundrað. Þar var leitað inngöngu og síðan flæddi mannskapurinn upp á aðra hæð og stóð fyrir framan hurðina að mötuneytinu sem þar var. Auk þess tróðum við okkur í stigann fyrir ofan og neðan og biðum spennt þegar Helga barði að dyrum. Einn kostgangarinn lauk upp og Helga spurði hvort Einar Helga væri þarna inni. Hann játti því og kallaði stundarhátt til Einars að verið að væri spyrja eftir honum. Heyra mátti saumnál detta þegar Einar birtist og Helga afhenti honum hátíðlega blómvöndinn góða og óskaði honum og Dísu til hamingju með trúlofunina. Opinmynntur og steinhissa tók hann við vendinum um leið og við klöppuðum öll svo undir tók í stigaganginum. Þetta telja fróðustu menn vera eitt af þeim örfáu tilvikum sem Einar Helgason varð gjörsamlega orðlaus. Hann var greinilega bæði hrærður og þakklátur og við ánægð að hafa glatt hann enda átti hann það sannarlega inni hjá okkur.
Ingólfur Sverrisson