20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Öfugmælanáttúra
Hvort skal þakka eða lasta þegar á herðar manni er lögð sú byrði að skrifa um daginn og veginn? Jú, þakka skal raunir sem lyfta mannkerti eilítið hærra frá vanþroska og óvisku. Nú skal skrifa um illa áttað eðli mannsins. Það birtist í mörgu.
Svifryk er í lofti. Fólk vill það ekki en býr það samt til með nagladekkjum sínum og akstri. Æpir samt upp yfir sig þegar götur eru rykbundnar. Bíllinn verður skítugur! Kannski ryðgar hann af saltinu! Skítt með lungnasjúklinga, asmasjúklinga, fólk með hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri sem þjást af óloftinu. Allt sé bílnum mínum dýra. Hvernig væri að nota ónegld dekk, aka minna, eiga minni bíl, aka hægar, hjóla, ganga, taka strætó ...? Fyrir okkur öll.
Akureyri er bærinn í skóginum. Við viljum logn, kyrrð og ró og fuglasöng. En af hverju höggvum við svo trén um leið og þau eru farin að hreinsa fyrir alvöru rykið úr loftinu, deyfa hávaðann frá umferðinni, laða til sín fuglana og búa til logn við húsin? Verslunarrisi heimtaði að tré sem bærinn átti og fegruðu leiðina inn í bæinn yrðu felld svo að verslunarhöllin sæist í allri sinni dýrð. Hvað með gott skilti á þakið? Hver hugsar mest um sjálfan sig.
Svo er sitt hvað, hreyfing og hreyfingarleysi. Fólk er latt að hjóla, ganga eða hlaupa í vinnuna, velur lyftuna en ekki stigann. Bíllinn er úlpan. Við líkamsræktarstöðvar eru stæðin full af þessum úlpum og fólkið úr úlpunum hjólar undir öskrum þjálfarans eða hleypur á bretti. Það er erfitt að moka snjó en auðvelt að lyfta lóðum. Erfitt að ganga í vinnuna en auðvelt að hlaupa á bretti. Hvert erum við komin?
Í Kjarnaskógi liggur kókómjólkurferna við stíginn. Einhver fór á fallegt útivistarsvæði til að viðra sig og hreyfa, njóta kyrrðar, samveru eða annarra lystisemda en ákvað að skilja þar eftir kókómjólkurfernuna sína. Döö! Eigum við kannski öll að gera þetta, ha? Vonandi var kókómjólkin góð í hljómkviðu fuglasöngs og ilmi trjánna.
Og vel á minnst, rusl. Að losna við úrgang og þurfa aldrei að hugsa um hann meir er ekki helgur réttur. Við erum ofdekruð því við höfum lengi getað látið þetta hverfa ofan í tunnu og málið leyst. Á meðan gleymdum við að ábyrgðin er okkar eigin. Sumir hugsa samt lengra en aðrir. Mývetningar ætla að nota kúkinn sinn til að græða upp manngerða eyðimörk í nágrenninu. Það er flott. Akureyringar setja upp risastóra dælu með síu og langt rör út í sjó. Kannski líka flott. Eða hvað? Hvað með öll dýrmætu næringarefnin? Svona verður þetta ekki eftir 50 ár. Sannið þið til.
Vandamál heimsins verða ekki leyst að ofan. Við lærðum 2020 að hvert lítið peð í mannhafinu er ómissandi hluti af lausninni á veiruvandanum. Hvert lítið peð þarf líka að gera sitt til að minnka svifrykið, minnka losun á gróðurhúsalofti, fækka slysum, bæta almenna heilsu og vellíðan, passa upp á skjólið og fuglana, fegra umhverfið, minnka hávaðann, minnka ruslið ... en auðvitað líka gleðja hvert annað.
Halldór Laxness skrifaði í frægri grein fyrir hálfri öld um öfugmælanáttúru Íslendinga að tala um uppblásna landið sitt sem óspillta náttúru og vinna samtímis að því að spilla því enn frekar. Bara réttindi, engar skyldur. Við höfum nefnilega skyldur og megum ekki gera hvað sem er. Ein skyldan er að klæða landið skógi og öðrum gróðri. Eðli mannsins er að hugsa vel um afkomendur sína. Áttum okkur á því og lifum í samræmi við það.
Mér finnst fara vel á því að ræktunarmaðurinn með meiru, Árni Sigurbjarnarson á Húsavík, taki við pennanum. Hann skora ég á til næstu skrifa.
-Pétur Halldórsson