Öflugt starf eldri borgara á Akureyri
Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) var stofnað árið 1982 og hélt því sinn 38. aðalfund þann 2. júní sl. Vel var mætt að venju, enda finnst eldri borgurum gott að koma saman og þar fóru fram hefðbundnir liðir eins og vera ber og það þýðir að kosið var í nefndir og stjórn félagsins, en sú regla er viðhöfð að hver aðili getur ekki setið í nefndum eða stjórn þess lengur en fjögur ár í senn.
Ný stjórn EBAK er þannig skipuð; formaður Hallgrímur Gíslason, varaformaður Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, gjaldkeri Torfhildur S. Þorgeirsdóttir og ritari Garðar Lárusson. Meðstjórnendur eru Birgir B. Svavarsson, Nanna B. Jónsdóttir og Helgi Aðalsteinsson. Í varastjórn eru Eva B. Magnúsdóttir, Friðrik Vagn Guðjónsson og Sigurður Harðarson. Samkvæmt fjögurra ára reglunni gengu úr stjórninni fyrrverandi formaður Haukur Halldórsson, varaformaður Margrét Pétursdóttir og gjaldkeri Dóra S. Jónsdóttir og var þeim þökkuð afburða góð störf. EBAK hefur á að skipa sex fastanefndir, sem eru ferðanefnd, fræðslunefnd, göngunefnd, skemmtinefnd og spilanefndir félagsvist og keppnisbridge.
Aðrar nefndir eru dansklúbbur, golfnefnd, gönguklúbbur, netmiðlar, kór eldri borgara, notendaráð, öldungaráð og húsnæðisnefnd. Af þessu má gögglega sjá að mjög öflugt og merkilegt starf er á vegum félagsins. Ársgjald var ákveðið kr. 3000 en 90 ára og eldri verða gjaldfrjáls. Af þessu öfluga starfi sem hér er lýst er aðeins eitt neikvætt atriði og snýr það auðvitað að bæjarstjórn Akureyrar. Húsnæðið sem EBAK hefur til umráða frá Akureyrarbæ að Bugðusíðu 1 fyrir starfsemi sína, og telur 1650 félaga, er fyrir löngu sprungið utan af starfseminni og margoft búið að biðja um stækkun fyrir daufum eyrum bæjarstjórnar.
Húsnæðisnefnd félagsins hefur t.d. bent á að stækka megi aðstöðuna með því finna annað gott húsnæði fyrir heimaþjónustuna sem er í húsinu og ætti ekki að vera vandalaust fyrir Akureyrarbæ að finna annað gott húsnæði fyrir þær öflugu og ósérhlífnu konur sem vinna hjá heimaþjónustunni og þurfa notalega aðstöðu. Þetta væri góð stækkun á húsnæði EBAK svona til að byrja með en ekki til frambúðar en svarið frá þeim sem þessu ráða er að til athugunar sé að færa heimaþjónusuna í nýbyggingu, þá sem
Heilsgæslustöðin muni byggja
En hvenær verður það? Og þvílíkt svar. Í öðru lagi hefur húsnæðisnefnd EBAK bent á að stækka núverandi húsnæði til suðurs í Bugðusíðu 1 og þá
um 100 fm og kostnaður áætlaður 30-35 milljónir en enn er talað fyrir daufum eyrum. Eldri borgarar bæjarins eru að meirihluta til fólk sem hefur tekið þátt í uppbyggingu þessa bæjar í tugi ára á einn eða annan hátt, auk þess að borga sína skatta og skyldur skammlaust og þetta eru þakkirnar.
Ég kemst ekki hjá því í þessu sambandi að minnast einu sinni enn á fjárausturinn og bruðlið sem átti sér stað þegar að heilum 400 milljónum var sóað umfram áætlun þegar að gamla Mjólkursamlagið var gert upp í þágu svokallaðs Listasafns og að auki nokkrir milljónatugir sem fóru í viðbygginguna frá Ketilhúsi í Listasafnið, auk brúarinnar sem í daglegu tali er nefnd Brúin yfir ekki neitt. Ég spyr að lokum; er svokölluð list í svo miklu meiri hávegum höfð en að búa sómasamlega um eldri borgara þessa bæjar? Hvernig er liðið í bæjarstjórn Akureyrar innréttað?
-Hjörleifur Hallgríms
P.S. Óformleg könnun hefur verið gerð á fjölgun eldri borgara 60+ á næstu 10 árum og kemur út með að fjölgunin verði um 1000 manns.