Öfgar

Egill P. Egilsson, ritstjóri.
Egill P. Egilsson, ritstjóri.

Leiðari

Egill P. Egilsson skrifar:


 

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi.

Alvarlegt kynbundið ofbeldi er sorgleg staðreynd á Íslandi og hafa m.a. eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna lýst áhyggjum sínum af hárri tíðni heimilisofbeldis hér á landi og hversu vægt er tekið á kynbundnu ofbeldi innan réttarkerfisins.

 Sláandi tölfræði

Fyrir mörgum árum síðan þegar ég var búsettur í Noregi heyrði ég af sláandi tölfræði. Að heimilisofbeldi ætti sér stað í einhverri mynd á fjórða hverju heimili (Hvort minni mitt sé nákvæmt hvað tölfræðina varðar er ekki aðalmálið. Upplifun mín var sú að það var of mikið). Ég var vitaskuld sleginn yfir þessu og ég man að ég horfði oft út um stofugluggann minn en ég var með gott útsýni yfir hverfið, og taldi húsin. Samkvæmt tölfræðinni bjuggu konur í mörgum þessara húsa í næsta nágrenni við mig við ofbeldi, ótta og niðurlægingu. Á sínu eigin heimili sem ætti auðvitað að vera þeirra griðarstaður.

Í Vikublaðinu sem kemur út í dag er afar áhugavert viðtal við unga konu frá Húsavík sem er í stjórn aðgerðarhóps sem kallar sig Öfgar.

 Að taka slaginn

Hún hefur haft hátt um kynbundið ofbeldi í nokkur ár og þurft að þola gríðarlegt mótlæti vegna þess. Jafnvel vinir hennar hafa snúið við henni baki fyrir það eitt að láta í sér heyra um stærsta réttlætismál sem samfélög heimsins standa frammi fyrir: Að uppræta kynbundið ofbeldi og ná fram jafnrétti kynjanna.

Allir kannast orðið við réttlætisbyltingar á borð við Metoo og aðgerðarhópurinn Öfgar hefur undanfarið gert sig gildandi í umræðinni um kynbundið ofbeldi. Mörgum hefur þótt aðferðarfræði hópsins stuðandi og öfgafull. Reglulega heyrast áköll um hófsamari og kurteisari umræðu um kynferðisbrotamál. Enn heyrast sjónarmið á borð við að karlmenn veigri sér við því að taka þátt í umræðunni af ótta við að vera „teknir af lífi“ á netmiðlum.

Allt í lagi kynbræður mínir, ef þið hættið ykkur ekki út í umræðuna, prófið þið þá að hlusta. Það er góð byrjun.

Kurteisin

Málið er að það er engin kurteisi í kynbundnu ofbeldi. Nauðganir eru aldrei hófsamar. Og þegar konur upplifa alla ævi að ekki sé á þær hlustað. Þá hlýtur að vera rökrétt skref að öskra. Krefjast áheyrnar, með öllum tiltækum ráðum. Og viti menn, ég held svei mér þá að það sé að virka.

Viðmælandi minn á miðopnu segir nafn aðgerðarhópsins, Öfgar; vera ádeilu. Konur  sem hafa neitað að láta þagga niður í sér hafa enda verið kallaðar frekjur og sakaðar um öfga. Þá er bara eitt í stöðunni; eigna sér þetta orð.

En hvað er raunverulega öfgafullt? Konur sem taka sig saman til að krefjast réttlætis eða óréttlætið sem þær verða fyrir.

Það er við hæfi á alþjóðlegum degi kynbundins ofbeldis að allar réttlætisbyltingar kvenna í gegnum tíðina voru eitt sinn kallaðar öfgar.

 Öfgar fortíðar

Það voru öfgar að krefjast yfirráðarétti yfir eigin líkama, rétturinn til þungunarrofs er jafnvel kallaður öfgar í sumum ríkjum Bandaríkjanna – svokallaðri vöggu lýðræðis. Vigdís Finnbogadóttir þótti heldur betur öfgafull fyrir að fara í forsetaframboð og spurningarnar sem hún fékk frá blaðamönnum þættu margar hverjar ekki kurteisar í dag.

Það er öfgafullt hversu fáar konur eru stjórnendur fyrirtækja á Íslandi í dag.

Öfgafyllst af öllu er þó sú staðreynd að dætur okkar og systur þurfi að óttast að á þær sér ráðist að næturþeli á skemmtanalífinu. Og þurfa svo að þola það að mikilsmetnir menn kasti því í andlitið á þeim að þær þurfi bara að drekka minna til að koma í veg fyrir að á þær sé ráðist. Já og svo skulum við ekki gleyma því að þeim liði auðvitað miklu betur ef þær tileinkuðu sér fyrirgefninguna.

Nei, öfgarnar eru svo sannarlega það mikla óréttlæti sem konur búa enn við í dag vegna þess eins að þær eru konur.

 Roðagyllum heiminn

Að endingu er það mér bæði ljúft og skylt að minna á átak Soroptismaklúbbs húsavíkur og nágrennis Dagurinn í dag markar upphaf 16 daga átaks sem lýkur 10. desember sem er alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Með  þessu átaki biðla Soroptismakonur til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga að taka þátt. Litur átaksins er appelsínugulur  og táknar bjartari framtíð án ofbeldis.

„Því viljum við biðja ykkur, kæru þingeyingar, að roðagylla t.d. ljós, glugga og hafa appelsínugulan lit á áberandi stöðum tímabilið 25.11. – 10.12. 2021.“ segja þær.

Nýjast