Ný skólastefna!
Undanfarið hefur menntun í verk- iðn- og tæknigreinum (VIT) fengið aukna umfjöllun. Flestir ef ekki allir tala um að auka þurfi vægi námsins á öllum skólastigum. Háskólinn á Akureyri ætlar að leggja sitt af mörkum og í stefnu háskólans sem gildir til ársins 2023 er beinlínis talað um að bjóða eigi upp á nám í tæknifræði. Í stefnunni segir að auka eigi námsframboð sem nái til breiðari hóps nemenda og tekur jafnframt mið af þörfum atvinnulífs um meiri menntun í tæknigreinum, námið geti hafist 2020 eða eftir tvö ár ef allt gengur eftir.
Hér á Akureyri erum við líka svo heppin að hafa Verkmenntaskóla sem býður upp á nám sem gagnast atvinnulífinu og þar með samfélaginu öllu og sem meira er, það passar við áform háskólans. Að þessu sögðu er samt ekki víst að allir hafi áhuga á því að fara í nám á háskólastigi en það er þó mikilvægt að það standi þeim til boða sem það vilja. Ákall er um verk- iðn- og tæknimenntað fólk á öllum sviðum samfélagsins og fyrir stuttu síðan komu fram tölur um að þeir sem ljúka sveinsprófum hafi fækkað um 35% á undanförnum árum og Samtök Iðnaðarins hafa vakið athygli á vægi iðnnáms undanfarið og ekki veitir af.
Þá að Háskólanum á Akureyri aftur og hvernig allt hangir saman, ef vel tekst til og tæknifræðin verður að veruleika, sem allt stefnir í, verður hægt að bjóða tæknifræðinemum við HA að taka kennsluréttindi samhliða og ef út í það er farið þá gætu fleiri skapandi greinar fylgt, sköpun er undirstaða svo margs og í framhaldi er þá hægt að ráða verk- iðn- og tæknimenntaða kennara inn í skólana og leik- og grunnskólastigið er þar ekki undanskilið. Það er kominn tími til að móta og setja nýja skólastefnu fyrir Akureyrarbæ sem tekur mið af nútíma samfélagi og mannauðnum sem þar er að finna. Kennarar eiga það skilið að ný skólastefna taki mið að þörfum hvers og eins, að öllum fögum verði gert jafnt hátt undir höfði. Háskólinn á Akureyri er greinilega tilbúinn að koma að verkinu, spurningin er hvort samfélagið hafi hlustað nægjanlega vel á raddir þeirra sem vilja standa vel að kennaramenntuninni og þeirra sem vilja gera kennarastarfið að lífsstarfi.
-Anna Kolbrún Árnadóttir, 2. varaformaður og þingmaður Miðflokksins í NA – kjördæmi