Norðurþing í upphafi árs !
Nú fögnum við nýju ári hér í Norðurþingi eftir mjög svo óvenjulegt ár sem lengi verður minnst fyrir allt hið „fordæmalausa“ s.s. heimsfaraldur, náttúru vá og að óskabarn okkar í atvinnumálum, verksmiðja PCC á Bakka, hefur verið í stoppi stóran hluta ársins ofl.
Nýja árið birtist okkur ljúflega, strax og ártalið í Skálamelnum breyttist úr 2020 í 2021 var bærinn uppljómaður af birtu frá flugeldum, blysum, skotkökum og bjartsýni fyrir nýju ári. Veðrið lék við okkur, logn og smá froststilla á nýársnótt. Síðan og nú um helgina hefur hlýnað og í dag 3. janúar er hitinn um +10 gráður, sunnan gola, sólin skín yfir hádaginn og gerir tilveruna alla svo fullkomna fyrir íbúanna með tilheyrandi útivist, gleði og bjartsýni, hver innan sinnar „jólakúlu“
Svona byrjar þetta ár sem við höfum beðið með eftirvæntingu í von um að okkur væri að takast að vinna á veirunni með nýja bóluefninu sem stefnt er að því að bólusetja með stærstan hluta þjóðarinnar á fyrri hluta ársins.
Forystumenn stjórnmálaflokkanna voru nokkuð samstíga í áramótaávörpum sínum, töluðu um stóru verkefnin fram undan á nýja árinu sem séu fyrst og fremst að vinna á Covid, koma samfélaginu gegnum skaflinn með aukinni atvinnu, vinna gegn atvinnuleysi, styrkingu innviða, og með öflugri viðspyrnu á öllum þáttum þjóðlífsins. Segjast meira að segja ekki ætla að gleyma þeim sem verst standa s.s. sjúkum, öryrkjum og eldri borgurum. Mikilvægt sé að okkur takist að standa saman, því eins og nú hefur sannast á liðnu ári er það samvinnan og samstaðan sem gerir okkur öfluga til að vinna okkur fram úr erfiðleikunum.
Við í Norðurþingi tökum árinu fagnandi, gleðjumst nú í upphafi og stillum strengina til að takast á við krefjandi áskoranir og verkefni ársins. Þau eru margvísleg, en eins og annars staðar höfum við fengið að finna fyrir veiru-skrattanum sem haldið hefur samfélaginu í fjötrum mestan hluta liðins árs. Okkar nýi og mikilvægi atvinnuvegur, ferðaþjónustan, hefur að stórum hluta verið lamaður, sama má segja um ýmsa aðra atvinnustarfsemi, heilsugæslu og skólum tókst með mikilli þrautseigju, skipulagi og elju að vinna stórvirki í að halda öflugu og mikilvægu starfi að mestu gangandi við gjörbreyttar aðstæður. Aðrir þættir hafa þó haldið sjó eða eflst við mótlætið og aðstæðurnar. Má þar nefna verktakastarfsemi, iðnaðarfyrirtæki, sjávarútveginn, verslunina, landbúnað og matvælaframleiðslu ýmiskonar svo ekki sé minnst á nýsköpun og hugvit sem virðist oft blómstra þegar kreppir að á öðrum sviðum.
Hvernig getum við hér á heimavelli unnið okkur fram úr vandanum með því átaki og viðspyrnu sem nú er nauðsynleg til að Norðurþing verði áfram samkeppnishæft til búsetu inn í framtíðina. Mikilvægt er að stjórnsýslan sé öflug, skipulögð, með skýr markmið, gegnsæ og tilbúin til frumkvæðis til að takast á við nýjar áskoranir og krefjandi verkefni. Lykillinn að því er traustur fjárhagur, öflug, kjarkmikil og frjó sveitarstjórn sem tilbúin er í krefjandi verkefni með samheldni og samvinnu að leiðarljósi. Sveitarstjórn sem vinnur vel fyrir íbúana alla, heldur þeim vel upplýstum og með í verkefninu frá upphafi og þar til skynsamleg niðurstaða hefur fengist.
Næstu mikilvægu verkefni sveitarstjórnar Norðurþings er að endurstilla strengina, ná að vinna saman að fullum krafti og skapa eins öfluga viðspyrnu og hægt er. Huga þarf vel að öllum innviðum, halda vel utan um þá sem verst hafa farið út úr kreppunni, hafa góða sýn yfir allt sveitarfélagið. Í atvinnumálum er mikilvægt að fylgjast með atvinnustarfsemi sem fyrir er og hlúa að henni og efla þau tækifæri sem þar eru. Má þar nefna útveginn, fiskveiðar og vinnslu, reyna eftir mætti að tryggja auknar aflaheimildir, vinna að frekari nýsköpun við nýtingu sjávarafla ofl. Í byggingariðnaði og verktakaþjónustu er margt á döfinni, er þar mikilvægt að sveitarstjórn tryggi eftir mætti framgang þeirra verkefna og að þau verði unnin sem mest af heimaaðilum á hverjum stað s.s. ýmsar jarðverksframkvæmdir, framkvæmdir við fiskeldi, byggingu Hjúkrunarheimilis, Íbúðakjarna fyrir fatlaða, bætt aðgengi á ferðamanna-stöðum og brýn verkefni er tengjast átaki í umhverfis- og loftlagsmálum sérstaklega í skógrækt og landgræðslu. Þá eru óupptalin öll tækifærin sem felast í nýsköpun og þekkingu, en þar hefur að undanförnu verið upplýst um nokkrar hugmyndir sem eru í vinnslu, og vonandi fyrr en seinna sjáum við afrakstur þess m.a. í nýrri „þaraþurrkunnar-verksmiðju“ og frekari úrvinnslu þörunga, „hugmyndasmiðjan Hraðið“ verði aftur sú lyftistöng í atvinnulífinu hér eins og á árum áður, nýjungar í fiskeldi, ný fyrirtæki verði til á iðnaðarsvæðinu á Bakka og verksmiðja PCC taki aftur til starfa og dafni eins og væntingar voru um í upphafi.
Til að allt þetta gangi eftir og viðspyrnan verði eins öflug og efni standa til er mikilvægt að allir þættir gangi upp með sameiginlegu átaki, samvinnu og samstillingu allra þ.e. sveitarstjórnar, starfsfólks sveitarfélagsins, fyrirtækja, stofnana og íbúa í Norðurþingi öllu. Ef það gengur eftir er framtíðin björt og Norðurþing sveitarfélag sem fólk vill búa í, sérstaklega unga fólkið sem vill þá setjast hér að og ala upp börnin sín í fjölskylduvænu sveitarfélagi þar sem atvinna er næg og fjölbreytt, innviðir traustir, heilsugæsla, skólar, félagsþjónusta, íþrótta- og æskulýðsmál til fyrirmyndar.