Mitt minni
Ég man ekki hvenær ég tók fyrst eftir því hvað ég er orðinn gleyminn. Það er út af fyrir sig eðlilegt, þannig er minnið – og gleymskan.
Minni manna er merkilegt. Sumum er það gefið traust og trútt. Þeir geta sagt frá löngu liðnum atburðum, rakið ættir, þekkja nöfn fólks og muna mörg símanúmer, fæðingardaga og lottótölur.
Þegar ég var ungur – fyrir löngu – átti ég fremur auðvelt með að muna eitt og annað. Til dæmis lærði ég öll skólaljóðin utan að – fyrra og síðara hefti – og gat þulið þau öll á einu kvöldi fyrir hana ömmu. Ég átti nefnilega von á því að verða látinn þylja eitthvað af þeim daginn eftir – valið af handahófi. Ég man ekki hvernig það gekk. Hitt man ég að þegar þetta var að baki fór mamma að kenna mér kvæði sem hún hafði lært í sínum skólaljóðum – eða af afa sínum – og taldi nauðsynlegt að ég kynni líka. Fyrst var það Fjallið Skjaldbreiður, síðan Sveinn dúfa og líklega komu fleiri á eftir.
Þessi kvæði kann ég ekki lengur en ég man hvernig kennslan fór fram. Þegar hún sat undir kúnum í kvöldfjósi fór hún með eitt og eitt erindi fyrir mig og ég lærði það jafnharðan. Að lokum átti ég að þylja allt kvæðið en það gat reyndar vafist fyrir mér en hafðist þó að lokum. Ekki held ég að mér hafi þá þótt tiltökumál að hún skyldi enn kunna þessi kvæði. Það breyttist seinna.
Mörgum árum síðar kom dóttir mín heim úr skóla og átti að læra kvæði um svanasöng á heiði. Okkur foreldrunum bar saman um það að þetta kvæði hefði ekki verið í þeim skólaljóðum sem við lærðum. Seinna kom í ljós að það var þar einmitt, sem sannaði að við höfðum bæði gleymt því mjög rækilega. Kannski var það þá sem ég fór að grufla í því hvernig mamma hefði lagt Svein dúfu, Fjallið Skjaldbreið og mörg önnur kvæði á minnið svo það var henni enn tiltækt áratugum síðar.
Það er líka skrýtið hvað kveikir á minni manns. Lykt, tónlist, bragð, jafnvel veður getur orðið til þess að „í minningum dauðum kviknar“, eins og Einar kvað. Sumir segja að í raun geymum við alla reynslu okkar í minninu en getum ekki alltaf sótt minningarnar, svona eftir hendinni. Ég hef rekið mig á að þegar ég man ekki nafn á einhverjum – sem er mjög algengt – rifjast það stundum upp eftir nokkra stund, helst þegar ég hef hætt að hugsa um það. Sennilega er eitthvert síróp komið í hausinn á mér - eitthvert seigjuefni er þar, svo mikið er víst. Annað er það að ég get frekar rifjað upp föðurnafn heldur en skírnarnafn. Þessi tvö nöfn eru sennilega ekki geymd á sama stað.
Fyrir fáeinum árum tók ég að mér að keyra af sýningu á Hrafnagili gamla dráttarvél, W4 eins og var til heima þegar ég var strákur. Þá vél keyrði ég oft og mikið. Allt gekk eins og í sögu og þegar ég hafði bakkað vélinni upp að vegg í Víðigerði steig ég á bremsuna og seildist í svolítið vírauga neðan við bremsupedalann til að læsa bremsunni. Þá brá mér hastarlega. Hvernig í fjandanum mundi ég þetta? Ég held að ef ég hefði verið spurður fyrr um daginn hvernig ætti að læsa bremsunni á W4 hefði svarið vafist fyrir mér. En þarna tók hægri höndin af mér ómakið, hún mundi hvernig þetta var gert.
Sé það svo að í raun munum við allt sem fyrir okkur hefur borið – þótt við minnumst þess ekki alls – má kannski þakka fyrir gleymskuna. Ég get ekki hugsað mér að muna eftir öllum sem ég hef hitt eða umgengist og samræðum við þá – nú eða eftir öllu því sem ég hef lesið um dagana.
Mörgu er nefnilega best að gleyma en vissulega er það hvimleitt að muna ekki nafn á gömlum nemanda sem heilsar mér á förnum vegi og gjarnan vildi ég nú muna hvar ég las um minni kynslóðanna. Það var í einhverri blaðagrein sem sagði frá músum sem hafði verið innrætt andstyggð á tiltekinni lykt. Mýsnar forðuðust allt sem bar þessa lykt, og það sem merkilegt var, afkvæmi þeirra gerðu það líka – og þeirra afkvæmi. Mýs sem ekki höfðu sætt þessari innrætingu kærðu sig kollóttar sem og allur þeirra kynþáttur.
Hugsið ykkur ef við hefðum – eða á ég að segja höfum – í minni okkar lífsreynslu forfeðranna, jafnvel eitthvað sem þau lærðu á sinni tíð? Ég hef samt ekki sama smiðsauga og pabbi, ekki heldur kvæðaminnið hennar mömmu, það hef ég sannreynt – kannski ég geti saumað eins og amma lærði á sinni tíð?
Ég skora á Konráð Erlendsson á Laugum að skrifa næst eitthvað gott.
-Valdimar Gunnarsson