Miðaldra karl og mamma, ok kannski aðeins meira en miðaldra

Eyþór Þorbergsson.
Eyþór Þorbergsson.

Hrafnhildur vinkona mín skoraði á mig að skrifa þessa grein í Vikublaðið.  Ég reyndi að segja nei en einhvern veginn tókst henni að telja mér trú um að ég hefði sagt já.  Markmið mitt á næstu misserum er að fækka vinum og kunningjum til að lenda ekki í þessu aftur.   Ég sem sagt virðist ekki komast undan þessu.  Hrafnhildur skrifaði í síðustu viku um jafnrétti.  Ég ætla hins vegar að skrifa um eitthvað mikilvægara.  Ég ætla sem sagt að kvarta yfir mömmu og hvernig hún gerði mig gráhærðan ef ég væri það ekki nú þegar.

Mamma er 90 ára.  Hún býr ein í eigin íbúð.  Ég er búinn að starfa sem lögfræðingur í 34 ár og hef bara átt ágætlega farsælan feril.  Mér hefur ekki enn tekist að snúa ofan af nokkuð algengri lögvillu sem fólk á hennar aldri var með.  Hún hélt því fram og heldur því enn fram að borgaraleg hjónavígsla gildi bara í 5 ár.  Ég hef í marga áratugi reynt að segja henni að þetta sé algjör vitleysa en hún trúir mér samt ekki.  Segir að Helgi á Helgafelli hafi sagt henni þetta og þar við situr.  Ég reyndi að spyrja hana hvernig fólk ætti að hafa sig að ef það vildi endurnýja hjónavígsluna.  Hún var með það alveg á hreinu.  Það skrifaði bara bréf til sýslumanns og fékk endurnýjun svona svipað og með ökuskírteini.  Það er kannski ekki svo vitlaust að vera með svona tímabundna hjónavígslu sem fólk endurnýjaði ef makinn hegðaði sér almennilega á fimm ára fresti.

Eins og ég sagði áðan býr mamma ein í tveggja hæða íbúð.  Hún gerir jóla og vorhreingerningu á hverju ári og neitar að fá heimilishjálp, þar sem hún heldur að heimilishjálpin þrífi ekki nægilega vel.  Ég held reyndar að hún þvoi gólfin einu sinni á dag.

Hún barði nágranna sinni út deilu um blómapott.  Það skal reyndar tekið fram að hún harðneitar sök.  En karlinn sem er reyndar miklu yngri en hún hótaði að kæra kerlu.  Við börnin hennar reyndum að beita nútíma aðferðum í sáttamiðlun án mikils árangurs.  Hún hélt að löggan myndi koma og handtaka sig út af þessum „röngu sakargiftum“ en í stað þess að biðjast fyrirgefningar pakkaði sú gamla niður í tösku og fór í betri fötin og beið eftir löggunni.  Hún hellti reyndar upp á kaffi og dróg fram kökur í því skyni að blíðka lögguna.  En hún var sem sagt frekar tilbúin að gista fangageymslu en biðjast afsökunar.  Mig grunar að hún sé ekki eins saklaus og hún vill vera láta.

Ég fer stundum að heimsækja mömmu og það hefur komið fyrir að ég fer með henni í göngutúr um þorpið þar sem hún býr.  Vandamálið er þá að hún gengur svo hratt að hún pikkar mig venjulega upp á leiðinni heim, en þá er hún búin að fara þangað sem hún ætlaði að fara og snúin við.

Mömmu finnst fólk á hennar aldri vera óttalegir aumingjar þeir sem ekki eru dauðir eru komnir inn á stofnanir.   Það að fara á stofnun er eiginlega meiri aumingjaskapur í hennar huga en að deyja. Þegar ég kem í heimsókn segir hún mér helstu fréttir úr þorpinu.  Krakkarnir mínir kalla það dánarfréttir og jarðafarir.

Mamma er sennilega elsti pírati landsins.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur mér ekki enn tekist að laga stjórnmálaskoðanir hennar frekar en annað. Fyrir nokkrum árum var ráðist á mig á heimili mínu um miðja nótt af einhverjum misindismönnum út af vinnu minni.  Mamma tók það eitthvað nærri sér og þó aðallega þannig að hún varð hrædd um að þetta lið kæmi og réðist gegn henni fyrir að vera móðir mín.  Sú gamla vopnaðist því og geymdi barefli við útidyrahurðina.  Ég var ekki svo hræddur um að drengirnir kæmu aftur í heimsókn en ég hafði miklu meiri áhyggjur af því að mamma myndi rota póstinn. Þær áhyggjur hafa lognast út af þar sem Pósturinn er búinn að komast að því að það er enginn rekstargrundvöllur fyrir því að bera út póst.

Mamma er haldin smá fordómum út í sumt og suma.  Til dæmis „jafnréttiskerlingum“,  -hún hefur aldrei hitt Hrafnhildi-, og feitu fólki.  „Jafnréttiskerlingar“ fara mjög í taugarnar á henni og hún virðist ekki skilja þetta „væl“ í þeim enda hefur hún svo sem alla ævi ráðið öllu sem hún hefur viljað ráða.  Hitt er meira leyndarmál af hverju hún er með fordóma fyrir fitubollum, það sem ég kemst næst er að henni finnst þeir taka of mikið pláss og vera fyrir sér.  Jú svo er hún með fordóma gegn  framsóknarmönnum, en það er eitthvað sem ég skil og við mæðginin deilum því áhugamáli að heilum hug  að tala illa um framsóknarmenn.

En sem sagt ég á í vandræðum með mömmu.

-Eyþór Þorbergsson

Nýjast