20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kjalveg þarf að leggja
Á ný hef ég ásamt fjórum þingmönnum lagt fram tillögu um endurnýjun vegar yfir Kjöl með það að markmiði að halda honum opnum stóran hluta árs. Meginrökin byggja á mikilvægum öryggis-, byggða og umhverfisverndarsjónarmiðum.
Í tillögunni er lagt til að samgönguráðherra hefji undirbúning og skyldi þeirri vinnu lokið í árslok 2022. Gerð yrði forkönnun á umhverfisáhrifum, samfélags og efnahagslegum áhrifum framkvæmdarinnar, varðandi ferðaþjónustu, byggðaþróun og náttúruvernd. Lagt er til að verkefnið byggji á notendagjöldum og hafi því ekki áhrif á forgangsröðun samgönguáætlunar. Einkaaðili geti þannig tekið að sér fjármögnun, framkvæmd og rekstur verkefnisins í umboði hins opinbera.
Sjö atriði vegna Kjalvegar
Kjalvegur frá Suðurlandi milli Hofsjökuls og Langjökuls og norður yfir hálendi Íslands, hefur frá landnámsöld verið mikilvæg samgönguæð. Endurbætur og uppbygging vegarins hefur verið til umræðu um áratuga skeið þó lítið hafi gerst.
- Kjalvegur er nú þegar einn fjögurra vega á hálendi Íslands sem teljast til grunnnets samgangna. Stofn í samgönguneti þjóðarinnar ásamt ákveðnum höfnum og flugvöllum í landinu. Það er því óboðlegt að þessu grunnneti sé ekki haldið við og byggt upp með sóma.
- Þó faraldur geysi verður að hugsa fram á veg. Þegar ferðaþjónustan mun taka við sér og er helsta vaxtarforsendan öflugir samgönguinnviðir. Hringvegurinn yrði því ekki eina greiðfæra leiðin heldur opnast aðrir möguleikar með styttri hringleið sem henta einstaklingum sem og ferðaþjónustuaðilum. Kjalvegssvæðið hefur verið lífæð margra fyrirtækja árið um kring. Sífellt fleiri ferðast um miðhálendið, njóta þess og upplifa. Það á ekki síst við um aukningu vetrarferða. Fyrir faraldurinn sóttu yfir 120.000 erlendir ferðamenn Langjökul við Kjalveg á ári. Hinu fornu hálendisvegir eru í niðurníðslu og flokkast sem slóðar fremur en vegir. Forystumenn Vegagerðarinnar hafa lengi talað fyrir bundnu slitlagi yfir Kjalveg.
- Kjalvegur er að mestu lagður efni úr næsta umhverfi vegarins, aðrir hlutar hans eru niðurgrafnar ýtuslóðir. Þetta eru þó ekki fáfarnir slóðar. Fyrir faraldurinn fóru um Kjalveg meira en um 1.000 bílar á dag, sem var gífurleg fjölgun. Vegna takmarkaðra viðhaldsgetu Vegagerðarinnar og æ meiri umferðar, grefur veginn niður á nokkrum vikum. Samtök ferðaþjónustunnar hafa því reglulega minnt á hlutverk Kjalvegar og bent á mikilvægi þess að vegasamgöngur milli landshluta verði bættar.
- Heilsársvegur yfir Kjöl eykur umferðaröryggi yfir hálendið og dregur úr slysahættu. Lögregla og björgunarsveitir hefðu greiðari aðgang að hálendinu til að vakta aukna umferð. Að auki nýtist heilsársvegur yfir Kjöl sem mikilvæg neyðartenging milli Norður- og Suðurlands.
- Þrátt fyrir ólík sjónarmið náttúruverndar og mannvirkjagerðar ættu flestir að vera sammála um að endurbætur Kjalvegar styrki náttúruvernd á hálendinu. Fyrir faraldurinn fóru tugþúsundir árlega um vegaslóðann. Ört vaxandi ferðamennska kallar yfirvegaða stjórnun gagnvart utanvegaakstri sem víða ógnar náttúru. Bundið slitlagi sem tæki mið af landslagi myndi auk þess draga stórlega úr rykmengun og skemmdum á ökutækjum. Bættur Kjalvegur byði ferðaþjónustunni ný tækifæri með hringleið fyrir ferðamenn og dreifði umferðarálagi sem skapaði jafnvægi ólíkra ferðamáta og ekki yrði gengið á óbyggðar víddir. Betri aðgangur almennings að töfrum miðhálendisins til að njóta þess og upplifa þyrfti alls ekki að vera mótsögn við náttúruvernd.
- Bættur Kjalvegur gæfi tækifæri til að styrkja landsbyggðina með samvinnu og samkeppni byggðarlaga. Betri tenging landbúnaðarhéraða. Nýjar skilvirkar samgönguleiðir mundu styrkja héruð hvarvetna og heilsársvegur yfir Kjöl tengdi saman landbúnaðarsvæði á Suður- og Norðurlandi.
- Betri vegir um hálendið styrkja ekki einungis ferðaþjónustu hverrar byggðar fyrir sig, heldur gæfi landsbyggðinnni tækifæri í heild með samvinnu og samkeppni einstakra byggðarlaga
Ég er sannfærður um að samgöngubætur yfir Kjalveg hefðu jákvæð áhrif á öryggi, umhverfi, nærsamfélag og efnahag. Hagsæld fólksins fer saman við skynsamlega nýtingu og vernd umhverfis.
-Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis.