Í stöðugu sambandi
Nútímasamfélag gerir kröfu á að við séum stöðugt í sambandi, að það sé alltaf hægt að ná í okkur og að við séum ávallt reiðubúin að svara. Það þykir eðlilegt að það sjáist hvort þú sért tengdur við samskiptaforrit og ef þú ert ekki tengdur forritinu þá hversu langt er síðan þú skráðir þig inn síðast. Eins þykir það afar mikilvægt að menn sjái hvort þú hafir opnað skilaboð sem þeir senda þér, svona til þess að tryggja að þér detti ekki í hug að bíða með að svara.
Allt eykur þetta á áreitið sem fylgir því einfaldlega að vera til, að hlaupa á hamstrahjóli lífsins og að komast í gegnum venjulegan dag. Dagar þess að taka heimasímann úr sambandi til þess að fá frið á meðan vikulegi glæpaþátturinn er í sjónvarpinu eru svo sannarlega taldir.
Fyrir nokkrum árum fóru svokölluð snjallúr að ryðja sér rúms. Þessi úr eru beintengd við snjallsímann og dæla í þig upplýsingum um allt mögulegt. Dæmi um upplýsingar sem streyma í gegnum úrið er hversu hraður hjartslátturinn er yfir í hver sé að senda þér tölvupóst.
Ég hafði aldrei prófað svona úr en fékk slíkt að láni frá manni sem sagði að ég yrði að eiga svona. Eftir að hafa prófað gripinn í um tvær vikur hef ég snarlega hætt við að nota hann og er í raun mjög hugsi eftir reynsluna. Ekki nóg með að snjallsíminn væri að gera heimtingu á að ég sé að glápa á hann allan sólarhringinn, ýmist til þess að velta mér yfir stöðu heimsmálanna og áhrifavalda eða til þess að svara endalausum skilaboðum sem dynja á manni úr hinum ýmsu áttum þá var úrið ítrekað farið að víbra á handleggnum og appið sem því fylgdi farið að rífa kjaft um að ég væri ekki að standa mig nógu vel í lífinu. Í hvert skipti sem einhver sendi skilaboð eða hringdi víbraði úrið með miklum látum á úlnliðnum, alla morgna gaspraði það um að ég hefði ekki sofið nóg vel og svo minnti það stöðugt á einhver skrefa markmið sem ég minnist ekki að hafa sett mér.
Eftir tvær vikur fékk ég nóg, reif úrið af mér og ákvað að láta staðar numið. Ég held nefnilega að þrátt fyrir allar þessar tengingar við umheiminn í gegnum snjalltækin höfum við aldrei verið í minna sambandi við okkur sjálf. Við nefnilega þurfum ekki úr til þess að finna hvort við höfum sofið vel eða illa, við getum bara hlustað á líkamann sem sér til þess að láta okkur vita hvort hann sé þreyttur eða sprækur. Þegar öllu er á botninn hvolft er betra að eiga það við sjálfan sig hvort maður sé ekki að hreyfa sig nóg, ekki sí víbrandi snjallúr.