Í allar áttir

Björn Ingólfsson.
Björn Ingólfsson.

Ég var einu sinni að slægja fisk á Frystihúsinu með Steina heitnum múr. Við stóðum fyrsta kastið hlið við hlið en svo sá hann fyrir sér betri uppstillingu og sagðist ætla að færa sig ufur fyrir borðið.

Flestir aðrir hefðu valið að segja austur fyrir eða norður fyrir borðið, hvernig sem það var nú. Steini valdi annað orð. Ufur fyrir.

Það eru nefnilega til miklu fleiri áttir en þessar venjulegu fjórar höfuðáttir, norður, suður, austur og vestur. Það er af því að fjórar áttir duga engan veginn ef menn þurfa að lýsa því hvert þeir eru að fara. Það er langt frá því. Ég er til dæmis alinn upp við fjórtán áttir, jafnvel fimmtán.

Þetta er ekkert rugl. Þetta eru staðreyndir.

Í viðbót við aðaláttirnar fjórar eru þessar: Upp, niður, út, inn, fram, yfir, útogupp, útogniður, suðrogupp og suðrogniður.

Fimmtánda áttin var svo útogvestur en hún var bara fyrir trillukarla og ég þurfti aldrei að nota hana. Þeir lögðu stundum línuna útogvestur af Kjálkanesi eða einhverju öðru kennileiti í landi. Aðrar samsettar áttir voru helst notaðar í sambandi við skepnur. Hestar fundust suðrogupp í Sellöndum og gemlingarnir voru kannski útogniður í Reiðsundi.

Af höfuðáttunum fjórum var norður minnst notuð. Eiginlega aldrei. Það var heldur ekkert norðan við okkur nema eyðibyggðir Gjögraskagans og ef við heimsóttum þær fórum við út í Fjörður eða út í Látur. Grímsey var líka þarna í norðri, þangað var líka út.

Austur og vestur var með einni undantekningu aðeins notað um fjarlægari héruð. Á Grenivík var ein gata sem lá nokkurn veginn frá norðaustri til suðvesturs. Ganga um þessa götu leiddi menn annað hvort austur á Vík eða vestur á Vík. Þetta ruglaði oft aðkomumenn sem þekktu réttar áttir.

Suður vísaði til ýmissa staða innansveitar en annars ekki á neitt fyrr en sunnan Holtavörðuheiðar.

Ég átti heima í Dal. Ef ég fór af bæ átti ég oftast leið niður í Jarlsstaði eða jafnvel alla leið niður á Vík. Þaðan fór ég svo til baka upp í Dal. Stundum fór ég út í Árbakka eða suður í Hvamm, jafnvel fram í Skarð eða inn í Noll. Ég fór suður í Kolgerði en ef ég kom við á Grýtubakka fór ég þaðan upp í Kolgerði. Þetta voru allt bæir í sömu sveit.

Svo þurfti stundum að fara lengra. Til dæmis fram í Fnjóskadal. Eftir að kom í Ljósavatnsskarð var austur allsráðandi. Austur í Reykjadal, austur á Húsavík og austur í Mývatnssveit.

Innan fjarðar fórum við inn á Svalbarðsströnd og inn á Akureyri. Það breyttist ef þurfti að fara lengra, kannski fram í Hrafnagil eða alla leið fram í Saurbæ.

Hinum megin fjarðar var sér á parti. Farið var yfir á Hauganes og yfir á Dalvík. Það var líka kallað fara yfir um eða jafnvel ufrum. Best var að fara ufrum með bát beina leið. En ef farið var með bíl þurfti að komast fyrir endann á firðinum og út hinum megin. Það mátti kalla að fara ufur fyrir fjörðinn eins og Steini múr kallaði að fara fyrir borðsendann.

Komin yfir um á Árskógsströnd vorum við stödd fyrir handan.

Hríseyjarferð kallaðist að fara út í Hrísey af því að þá fórum við ekki alla leið ufrum. Samt var farið út í Ólafsfjörð þótt hann væri fyrir handan.

Til að fara vestur var ekki nóg að fara til Siglufjarðar. Það var út. Í Skagafirði vorum við komin vestur.

Það er margt skrýtið í þessum áttavísunum. Ég veit ekki betur en bæði Austfirðingar og Vestfirðingar fari norður þegar þeir fara til Akureyrar. Þegar þeir snúa til baka fara þeir samt ekki suður heldur austur og vestur. Skrýtnast finnst mér samt ef satt er að Grindvíkingar fari suður þegar þeir fara til Reykjavíkur.

Í þessu máli eru engar reglur sem hægt er að festa hendur á. Málvenjan gildir og hún er sterk. Maðurinn sem skrifaði í fyrra bókina um morðið í Grenivíkurkirkju varaði sig ekki á þessu. Hann kynnti sér staðhætti rækilega og var með þorpið á hreinu en þegar lögreglumenn hans, staddir á Akureyri, töluðu um að fara inn að  Grenivík þá kipptist maður aðeins við og hætti að trúa.

Kannski á þessi fjölbreytni í áttum eftir að detta öll úr sögunni. Mér heyrist næsta kynslóð vera byrjuð að ofnota út. Eigi til að fara jafnt út í Laufás og út í Höfða og út á Akureyri.

Út í Reykjavík? Nei, því skal ég aldrei trúa.

Ég skora á Valdimar Gunnarsson á Rein að koma með næsta pistil.

-Björn Ingólfsson

 

Nýjast