„Hver í andskotanum vill heyra leikara tala?“
Það er ekki lengra síðan en árið 1927 sem Harry Warner, einn stærsti kvikmyndaframleiðandi sögunnar, lét út úr sér þessi frægu orð. Þau urðu til við þær aðstæður að verið var að kynna fyrir honum leið til þess að leggja tónlist yfir bíómyndir á tímum þöglu myndanna í stað þess að láta tónlistarmenn spila undir á hverri sýningu. Fyrrnefndur Harry sá strax að hægt var að spara töluverðar fjárhæðir við það eitt að hætta að borga húshljómsveitinni í hvert sinn sem sýning var í gangi og að minni kvikmyndahúsin gætu þá jafnvel sýnt oftar. Þetta var brilljant hugmynd, win win dæmi fyrir alla. En þegar framsækinn yngri bróðir hans hallar sér að honum og hvíslar því í eyra hans að þeir gætu með þessari sömu tækni látið leikarana tala brást Harry forviða við og sagði þessi frægu orð: hver í andskotanum vill heyra leikara tala?
Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er ekki að gera hans orð að mínum því að sjálfsögðu elska ég allar þær tækniframfarir sem átt hafa sér stað síðastliðin ár og ekki síst á sviði kvikmyndagerðar. Engu að síður þá finnst mér áhugavert að rýna í söguna út frá hugleiðingum um framfarir og framtíðirnar. Ég hef undanfarin ár verið svo lánsöm að starfa á sviði ráðgjafar og fræðamennsku um nýsköpun og hef á þeim vettvangi hitt fjölmarga „Harry“-a og eins marga, ef ekki fleiri, „yngri bræður“ sem þrátt fyrir umhverfi sem skilur ekki framtíðarsýnina þeirra, halda alltaf áfram. Það krefst hugrekkis, seiglu og krafts að þora að elta hugsjónir sínar, að stíga út fyrir ramman og taka áhættu. Enginn sem stofnar bíóhús eða framleiðir lyktarlaust harðfiskpopp hugsar með sér að þetta verði ekkert mál. Frumkvöðlar heimsins vita að á hverju götuhorni býður fjöldinn allur af hörmungarhyggjusérfræðingum til viðbótar við aðrar áskoranir sem rekstur og þróun hugmyndavinnu býður upp á. Að eiga sér framtíðarsýn, og helst fleiri en eina, er ásamt ástríðu mikilvægasta veganestið sem frumkvöðull getur tekið með sér inn í daginn. Ég þreytist ekki á því að segja fólki að klappa sér á bakið, tala í sig og hugmyndir sínar kjark og þora að elska óvissuna sem felst í því að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér á sama tíma og það er undirbúið undir nokkrar sviðsmyndir á sama tíma. Ég hef alla ævina verið upptekin af góðum hugmyndum, sem barn stundaði ég það að bjóða systkinum mínum vinnu- og vöruskipti, ég reykti njóla í skiptum fyrir leyfi til þess að vera með eldri stelpunum í hverfinu mínu og ég gekk jafnvel svo langt að reyna að selja gömlum bónda föður minn fyrir súkkulaði. Eftir því sem ég hef elst hafa góðu hugmyndirnar svolítið breyst og viðskiptahættirnir líka en stóri lærdómurinn minn er einfaldur; sjálfsálitið er eina álitið sem skiptir máli og því meira sem ég elska mig og lífið þeim mun fleiri tækifæri banka upp á hjá mér.
Ástríðu og skýra sýn á framtíðirnar er ekki hægt að kenna en þær er hægt að vökva og halda lifandi með stuðningi, hvatningu og áhuga og þar höfum við sem samfélag ríkri skyldu að gegna. Krafturinn á bak við góðar hugmyndir kemur ekki einungis frá einstaklingnum sjálfum heldur líka frá þeim jarðvegi sem þær vaxa í og þeim væntingum sem þeim er leyft að vaxa upp í. Hvetjum börnin okkar til þess að hugsa stórt, segjum þeim að þau séu frábær og leggjum okkur fram um að fóstra sjálfsálit allra sem á vegi okkar verða með uppbyggilegu samtali. Bítum svo í tunguna á okkur þegar yngri bróðir hvíslar einhverju fáránlegu í eyrað á okkur.
Að því sögðu get ég ekki annað en skorað á yngri bróður Þórhall Guðmundsson að taka við keflinu.
-Anna Guðný Guðmundsdóttir