Hvað þurfa margir að missa rödd?

dr Valdís Ingibjörg Jónsdóttir
dr Valdís Ingibjörg Jónsdóttir

„Fær martraðir um að missa röddina“ var fyrirsögn að viðtali við söngkonuna Klöru Elíasdóttir. Það er í raun sorglegt at lesa þetta vegna þess að þetta ber vitni um almennt þekkingarleysi á rödd. Sé ekki um sjúkdóma að ræða, á röddin ekki að gefa sig ef þekking er fyrir hendi.. Hins vegar vegna þess hve fólk veit almennt lítið um rödd veit það ekki hvað getur skemmt hana.

Rödd er ekkert annað en hljóð sem við skynjum. Sem hljóð bilar rödd ekki en „biluð“ rödd segir til um að eitthvað sé að því líkamskerfi sem myndar hana. Þarna liggur hundurinn grafinn. Fólk áttar sig ekki á því að um líkamsstarfsemi er að ræða og kann því ekki að varast þær hættur sem geta sett þessa starfsemi úr skorðum. Skammvinn læknisinngrip sem ná röddinni upp duga skammt og eru ekki sambærileg við árangurinn af því að hafa þekkingu til þess að halda góðri raddheilsu.

Það er sorglegt að þekkingarleysi ráðamanna sem eiga allt undir sinni eigin rödd skuli í raun hindra að fræðsla um rödd og raddheilsu skuli ekki vera meðal námsefna um líffræði í skóla. Annað. Raddheilsa á að heyra undir lýðheilsu Það var fáránlegt á sínum tíma að ráðherra skyldi leggja blessun sína yfir verkefni sem hvatti fólk til að koma til Íslands beinlínis til að öskra úr sér stressið – verkefni sem varð reyndar verðlaunað. Þetta er í fyrsta skipti sem ég verð vitni að því að eitthvert framtak sem beinlínis getur valdið heilsutjóni sé verðlaunað. Öskur sem önnur misbeiting raddar geta nefnilega valdið skaða á raddfærum eins og t.d raddböndum.

Er ekki talað um að öskra úr sér röddina? Hættum þessum blindingjaleik og bætum úr þekkingarleysi almennings á rödd. Ég skora á ráðamenn að bæta hér úr. Til þess að halda röddinni þarf -langoftast - fyrst og fremst þekkingu en ekki læknisfræðileg inngrip.

 Höfundur er radd-og talmeinafræðingur.

Nýjast