Hið eilífa nú
Tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Ætli textahöfunda hafi raunverulega grunað hversu hratt tíminn gæti liðið? Eða líður tíminn kannski hraðar eftir því sem fólk eldist? Það eina sem ég veit er að tíminn geysist áfram af ógnarhraða. Dagar, vikur, mánuðir, ár. Furðulegast finnst mér að venjast því að rifja upp eitthvað sem átti sér stað fyrir tuttugu árum en gæti allt eins hafa gerst í gær. Svo magnaður er heilinn okkar að geta kallað fram minningar æsku- og unglingsára eins og ekkert sé. En hvað er það sem kallar þetta fram og heldur í minningarnar? Fljótt á litið langar mig að segja skynfærin. Það eru skynfærin sem færa okkur til baka. Ilmur af einhverju, kunnuglegt lag, mynd sem augað nemur, minning um snertingu.
Það eru skynfærin okkar sem hjálpa okkur að skapa okkar dýrmætustu minningar. Skynfærin eru einmitt líka okkar helsta leið í núvitund. Að taka eftir og skynja. Svona eins og bráðum tveggja ára sonur minn, sem er að læra á heiminn í gegnum upplifun og skynjun. Helst þarf hann að snerta allt; gras, möl, mold og vatn. Ósjálfrátt dansar hann við tónlist sem hann heyrir og hlær þegar eitthvað gleður. Það er ekkert sem truflar. Engin óþægileg minning um gærdaginn eða óljós hugmynd um morgundaginn. Það er bara núið og núið er eilíft. Að flýta sér er ekki til, enda snýst lífið hjá tveggja ára um að lifa og njóta. Skoða og snerta. Leika og dansa. Og um leið og við sem eldri erum finnum okkur í einhverju af þessu framangreindu að þá oftar en ekki gleymum við stund og stað. Gleymum gærdeginum og morgundeginum. Gleymum áhyggjunum. Og við bara erum. Hér og nú. Á þessu eilífa augnabliki hvar tíminn virðist standa í stað. Gott ráð til þess að hægja á tímanum er því einfaldlega: Að vera meira eins og tveggja ára.