Haustbréf úr 603

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Haustið er mín uppáhaldsárstíð, í það minnsta hér á Akureyri. Þegar kulið í  hauststillunum fer að minna á það sem óhjákvæmilega er framundan, skartar gróðurinn sínum fegurstu litum eins og haldið sé dauðahaldi í lífið og sumarið. Mannlífið færist líka í annað og skrautlegra horf um leið og reyniberin roðna og síðustu bláberin verða næturfrostinu að bráð. Ferðamennirnir sem fylla bæinn á sumrin hverfa eins og hverjir aðrir farfuglar og skilja eftir sig bisness og gleymdar sundbuxur í klefa.  Þetta sumar Covid19 voru það auðvitað mest íslendingar sem mættu, en þeir stóðu sig frábærlega, settu svip á bæinn, fóru á söfn og veitingahús og jafnvel í hvalaskoðun. Allt þetta án þess að það þyrfti eitt einasta skemmtiferðaskip að menga fjörðinn bláleitri móðu.

Jafnvel með eins metra reglu, fer haustlífið í gang og framundan liggur heill vetur af félagslífi og skólahaldi, kórastarfi, leikfélögum í hverjum hreppi og öllu sem því sem ferðamönnum er oftast hulið. Enginn fer í helgarferð til útlanda þetta haustið enda varla þörf á því þar sem hinn stóri heimur heldur innreið sína í okkar litla Kardimommubæ. Þannig eigum við orðið okkar eigið Lindex, Tiger, og núna H&M (sem ég kalla Hennes & Mauritz, en það er víst mjög gamaldags). Og þangað mæta allir,  jafnt fermingastúlkur með meik og stútungskonur úr sveit. Þær síðastnefndu eru yfirleitt með eiginmanninn upp á arminn og þeir reyna að virka veraldarvanir í þessum alþjóðlega tískuheimi og stilla sér upp með stirðu brosi á meðan frúrnar skoða herlegheitin.

Langar leiðir sér þó að þeir vildu vera annað hvort komnir heim í dalinn sinn eða bara á kaffihús með hnallþóru og rjúkandi kaffi, -blessaðir mennirnir.  Svo taka þeir frúna með í Byko og gleði sína aftur.

Megi haustið bjóða ykkur upp á góðar verslunarferðir og lítið af veirusýkingum.

-Inga Dagný Eydal

Nýjast