Gullfoss-Akureyri 218 km

Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.

Fyrir nokkrum vikum birti ég á þessum vettvangi álit þar sem ég lýsti því hve gríðarlegt hagsmunamál nýr Kjalvegur væri fyrir Norðlendinga. Sú skoðun kemur einnig fram í tillögu sem ég hef ítrekað lagt fram á Alþingi um endurnýjun vegar yfir Kjöl með það að markmiði að halda honum opnum stóran hluta árs. Vísa ég þar til veigamikilla öryggis-, byggða- og umhverfissjónarmiða.

Þar er lagt til að samgönguráðherra hefji undirbúning og skyldi þeirri vinnu skilað í árslok 2022. Gerð yrði forkönnun á umhverfisáhrifum, samfélags og efnahags áhrifum framkvæmdarinnar, varðandi ferðaþjónustu, byggðaþróun og náttúruvernd. Verkefnið byggir á notendagjöldum og hafi því ekki áhrif á forgangsröðun samgönguáætlunar.

Í Vikublaðinu tilgreindi ég sjö atriði vegna lagningar Kjalvegar frá Suðurlandi milli Hofsjökuls og Langjökuls og norður yfir hálendi Íslands. Mig langar til að bæta við nokkrum atriðum svo verða mætti til framgangs málsins.

Til skammar þrátt fyrir að vera í grunnneti samgangna 

Kjalvegur er nú þegar einn fjögurra vega á hálendi Íslands sem teljast til grunnnets samgangna. Það er með öllu óboðlegt að þessu grunnneti sé ekki haldið við og byggt upp með sóma. Hinu fornu hálendisvegir eru í niðurníðslu og flokkast sem slóðar fremur en vegir. 

Forystumenn Vegagerðarinnar hafa lengi talað fyrir bundnu slitlagi yfir Kjalveg í stað hinna niðurgröfnu ýtuslóða. Í Bændablaðinu í júnímánuði 2013 sagði Hrein Haraldsson fyrrverandi vegamálastjóri ástand Kjalvegar vera til skammar fyrir þjóðina.

Ferðamannavegur á bundnu slitlagi opinn 7-8 mánuði

Hreinn segir að fyrst og fremst hafi verið horft til hálendisvega sem ferðamannavega en með bundnu slitlagi. Að mestu hafi menn verið að horfa á óbreytta staðsetningu Kjalvegar en hugsanlega með tengingu niður í Skagafjörð myndi auka notagildi vegarins verulega. Hann miðaði við að nýr Kjalvegur yrði opinn 4-6 mánuði á ári en í þingsályktunartillögu minni er talað um 7-8 mánuði. Jafnframt sé ég fyrir mér að ferðamannavegurinn bæri minni öxulþunga en þó myndu rútur nýta veginn. Ekki væri miðað við vöruflutninga og um leið yrðu framkvæmdin ódýrari.

 

Vaxtarforsenda ferðaþjónustu eru öflugir samgönguinnviðir

Það kemur ekki á óvart að Samtök ferðaþjónustunnar hafi reglulega minnt á hlutverk Kjalvegar enda er vaxtarforsenda öflugrar ferðaþjónustu sterkir samgönguinnviðir. Íslenska ferðaþjónustu vill bjóða almenningi að töfrum miðhálendisins til að njóta og upplifa.

Sífellt fleiri ferðast um miðhálendið. Þannig heimsóttu árlega fyrir faraldurinn yfir 120.000 erlendir ferðamenn Langjökul við Kjalveg. 

Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar, hefur bent á að 1.3 milljónir erlendra ferðamanna sem komu hingað árið 2018 hafi tekið bíl á leigu. Hann áætlar meðalakstur erlendra gesta árið 2018 tæpa 1.600 kílómetrar. Þeir hafi því ekið bílaleigubílum alls 660 milljónir kílómetra sem jafngildir meðalakstri 56 þúsund heimilisbíla Íslendinga. Þetta er gríðarleg aukning umferðar. Umferð ferðamanna á bílaleigubílum var sjöfaldaðist frá 2010 til 2018.

Nýr öxull íslenskrar ferðaþjónustu

Með nýjum Kjalvegi styttist vegalengdin á milli Gullfoss og Mývatns um 237 kílómetra og yrði rétt 300 kílómetrar. Til yrði nýr öxull íslenskrar ferðaþjónustu sem tengdi saman tvö helstu ferðamannasvæði landsins.

Með nýjum Kjalvegi yrðu einungis 135 kílómetrar frá Gullfossi niður í byggð Skagafjarðar og 218 kílómetrar til Akureyrar. Það segir talsvert um möguleika á uppbygging ferðaþjónustu Norðurlands.

Aukning umferðar kallar á að slegin yrði skjaldborg um vernd hálendisins. Nýr Kjalvegur sem tæki mið af landslagi, styrkir náttúruvernd á hálendinu, auðveldar stjórnun gegn utanvegaakstri og drægi stórlega úr rykmengun og skaða ökutækja.

Kjalvegur í sameiningarviðræðum sveitarfélaga

Bættur Kjalvegur styrkir möguleika landsbyggðar á samvinnu og samkeppni byggðarlaga og tengingu landbúnaðarhéraða. Þannig hefur lagning Kjalvegar verið áhersluatriði í viðræðum Húnvetninga um sameiningu sveitarfélaga við Húnavatnshrepp, Blönduósbæ, Skagabyggð og Skagaströnd. Öll hafa þau stutt þingsályktunartillögu um lagningu Kjalvegar í einkaframkvæmd.

Hvað þarf til?

Til að hrinda verkefninu af stað skiptir mestu sátt og samstaða þeirra sveitarfélaga sem tengjast málinu, landshlutasamtök á Suðurlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Þá skiptir framkvæmdahugur landsbyggðarþingmanna miklu.

Hagsæld fólks, nýr Kjalvegur fer saman við skynsamlega nýtingu og verndun umhverfis.

Gullfoss kort

-Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis

 

 

 

Nýjast