Grábleikt kjötfars og gamall fiskur
Lög og reglur leggjast misjafnlega í fólk, einnig boð og bönn. „Það má ekki pissa bak við hurð,“ segir í þekktu lagi. Ætti það ekki að vera valfrjálst? Fjölmargir vilja frelsi til að gera það sem þeim sýnist meðan aðrir vilja negla nánast alla hluti niður í regluverk. En hvenær er um að ræða óþarfa afskiptasemi og hvenær reglur sem byggja á haldbærum rökum? Og hvað má vera í matinn?
Mér finnst alveg sjálfsagt að pissa bak við hurð - svo fremi sem þar sé salerni að finna. Kannski ættum við að útbúa unglingaherbergin þannig, að hafa litla hlandskál og handlaug bak við hurð. Þetta myndi síður rjúfa gæðastundir þeirra við tölvuleiki og þáttaáhorf og engin ástæða til að æða fram í spreng og koma jafnvel að læstum dyrum að salerni heimilisins.
Annars ætlaði ég ekkert að tala um piss. Og ekki heldur kúk. Hvort tveggja hefur reyndar verið áberandi í fréttum af nýrri og tímabærri skólphreinsistöð Akureyringa. Vissulega tengist þetta líka þeim lífsgæðum sem liggja mér á hjarta því það sem maður lætur ofan í sig skilar sér aftur út en það er spurning hvers konar fæða og lífshættir geti fært manni betri heilsu og lengri ævi.
Er nokkuð kræsilegra en klístrað, dillandi, grábleikt kjötfars úr ótilgreindum hráefnum? Hinn eini, sanni heimilismatur. Soðnar kjötfarsbollur með káli, fitubrák og bræddu smjörlíki. Steiktar bollur með kartöflustöppu og brúnni sósu. Ofnbakað kjötfars með stöppu. Kjötfars á franskbrauði, brúnað á pönnu og jafnvel snætt með spaghetti og tómatsósu. Mmm, maður fær bara vatn í munninn – og þó.
Sjálfsagt hafa heilsupostular komið óorði á klístrið. Reyndar sá ég í gömlum dagblöðum að í stikkprufum reyndist kjötfars oft vera óhæft til manneldis sökum gerlafjölda. Síðan uppgötvuðu menn skaðsemi hroðalegra litarefna, bindiefna, msg og alls kyns hjálparefna sem voru bönnuð og kjötfarsið glataði lit sínum og áferð að einhverju leyti. Það sama má segja um vínarpylsur og malakoff.
Margt fleira snæddi maður í æsku og eitthvað fram eftir vísdómsárum, s.s. sænska pylsu, medisterpylsu, kjötbúðing, sperðla, fiskbúðing og fiskbollur í dós. Svo var eftirmatur. Má þar nefna sætsúpu, Royal búðing og hvers kyns mjólkurmat með kanilsykri eins og mjólkurgraut, sagóvelling, hrísmjölsgraut og makkarónusúpu. Ekki má gleyma sætabrauðinu, franskbrauðinu og töfraefnunum tómatsósu og sultu sem voru notuð með öllu. Og djúsinn. Jæja, best að hætta áður en ég fer að sakna Vallash og Cream soda.
Vissulega var fiskur oft á borðum. Soðinn, steiktur í grunsamlegu raspi, ofnbakaður. Átti að heita ferskur en hafði stundum velkst um í lest síðutogara í hálfan mánuð og orðinn dálítið kæstur. Saltfiskur með hömsum og reyktur fiskur. Lambakjöt á sunnudögum en stöku sinnum dularfullt gúllas (hjörtu, nýru, hrefnukjöt o.fl.) eða eitthvað reykt og saltað með kolólöglegum efnum. Svið, slátur og allur sá pakki, lifur og fleira hnossgæti. Unghænur héldu innreið sína nokkru síðar og þar á eftir komu kjúklingar á færibandi.
Að einhverju leyti eru rannsóknir og vísindi angi forræðishyggju en við þurfum að læra af reynslunni. Ég man auðvitað líka eftir því þegar fólk reykti í stríðum straumum og börn ólust upp við reykský á heimilum og í fjölskyldubílnum, eitthvað sem fjaraði varla út fyrr en um síðustu aldamót. Fleiri reykský mætti nefna, s.s. frá verksmiðjum, olíukyndingu og ómalbikuðum götum.
Í raun er ég að segja að fyrri kynslóðir hafi alist upp við óhollari mat, verra húsnæði, meiri mengun af ýmsu tagi, miklu meiri reykingar og margt í sama dúr. Fólk vissi ekki betur. Ekki er lengur boðið upp á sígó og sjúss í fermingarveislum og unga fólkið okkar hefur nú alla möguleika á því að lifa vel og lengi, þökk sé rannsóknum, þróun, aukinni umhverfisvitund, framförum í læknisfræði og lýðheilsufræðum.
Auðvitað fara umræður um hollustu gjarnan í nokkra hringi en meginlínurnar ættu að vera skýrar. Fjölbreytt og ferskt fæði, minna af sykri og unnum kjötvörum, nóg af vatni. Allt hráefni er aðgengilegra en áður og margir ósiðir hafa verið lagðir niður. Reyndar hafa nýir komið í staðinn. Hvað er málið með að halda orkudrykkjum, nikótínpúðum, skyndibitum, sælgæti og sykursulli að börnunum okkar? Jæja, ekkert tuð hér. Við eigum glæsilegra og efnilegra ungt fólk í dag en nokkru sinni fyrr, fólk sem á væntanlega kost á lengra lífi en fyrri kynslóð og betri heilsu á efri árum ef… já, það er bara spurning um þetta ef. Jafnvel býsna mörg ef. Samfélagið hefur nefnilega tilhneigingu til að eitra fyrst og selja okkur síðan dýrar lausnir. Hunsa forvarnir en fást við skaðann efti
Ég skora á Þóru Guðnýju Baldursdóttur sjúkraþjálfara, að taka upp þráðinn eða spinna nýjan.
-Stefán Þór Sæmundsson, höfundur er íslenskukennari og rithöfundur.