Gengið í Glerárdal

Með tilkomu Glerárvirkjunar 2 varð til stígur frá stöðvarhúsinu við Hlíðarbraut og að inntaksstíflunni fram á Glerárdal. Byggir þetta á hugmyndum sem Skírnir Sigurbjörnsson setti fram á sínum tíma um virkjun Glerár og gerð göngustígs ofan á fallpípunni.

Þetta er liður í að opna fólkvanginn okkar, Glerárdal, betur fyrir fólki. Það er gaman að sjá hversu mikið þessi stígur er notaður, bæði af hjólandi og gangandi fólki.

Við hjónin gengum þennan stíg um daginn. Við gerðum það í tvennu lagi. Í fyrra skiptið gengum við frá skotsvæði SkotAk og fram að stíflu. Leiðin fram eftir er um 4km á góðum stíg og hækkun ekki mikil. Á þessari leið opnast dalurinn vel á móti manni og maður sér vel fjöllin sem umlykja hann. Einnig sést vel niður í gilið. Um miðja vegu fram eftir er hægt að fara yfir gömlu göngubrúna yfir á austurbakkan. En leið okkar liggur fram að stíflu. Stíflan er steypt og lítið uppistöðulón er ofan við stífluna. Þegar við vorum á ferðinni fór öll áin í inntaksrörið og ekkert fram hjá á yfirfalli, en stutt fyrir neðan eru lækir úr báðum hlíðum búnir að safna í á aftur. Stíflan er alveg ný og greinilegt að ganga þarf aðeins betur frá í kringum hana til að svæðið líti betur út. Einnig mætti Fallorka að ósekju koma upp smá áningarstað þarna til að hægt sé að tilla sér og jafnvel borða nesti. Nesti, smurt, kleinur og jafnvel kakó gefur alltaf góða stemmingu í gönguna.

Hægt er að fara yfir ána á stíflunni og tengjast stígum að austan

Viku seinna lokuðum við leiðinni með að ganga frá stöðvarhúsinu og upp að skotsvæði. Það eru tæpir 3km og leiðin töluvert brött. Göngustígurinn er góður og hann opnar fyrir manni Glerárgilið í allri sinni dýrð. Í ljós koma flúðir og fossar, sem ekki sáust áður. Gönguleiðin er mjög falleg og skemmtilega lögð upp gilbarminn. Það er ekki bara gilið og áin, sem vekur áhuga , heldur er líka gaman að sjá hversu vel hinir ýmsu klúbbar hafa komið sér upp aðstöðu í dalnum, með elju og dugnaði félagsmanna. Af stígnum sér maður vel yfir svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Þarna er aksturssvæði KKA með góðri mótorhjólabraut. Einnig hefur Skotfélag Akureyrar sína aðstöðu þarna. Ótrúlega mikið líf!

Öll þessi framkvæmd fellur vel inn í landslagið og er til mikils sóma fyrir Fallorku. Ég mæli hiklaust með þessari leið, hvort sem er á hjóli eða gangandi. Það getur hver sem er valið sér lengd og erfiðleikastig, því alltaf er hægt að snúa við. Glerárdalur og gilið eru mjög falleg og sannarlega rétt ákvörðun hjá okkur að gera dalinn að fólkvangi.

Góða skemmtun

-Oddur Helgi Halldórsson

 

Nýjast