Froðupólitík

Hilda Jana Gísladóttir  skrifar
Hilda Jana Gísladóttir skrifar

Kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um gjaldfrjálsa leikskóla hefur í mínum huga  aðeins tvær skýringar, annað hvort algjöra vanþekkingu á rekstri sveitarfélagsins eða þar að baki er vísvitandi ákvörðun um að blekkja kjósendur í aðdraganda kosninga. Það er merkilegt nú að fylgjast með oddvita Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í fjölmiðlum kenna samstarfsflokkum sínum í meirihluta í bæjarstjórnar, L-listanum og Miðflokknum um að það sé ekki hægt að efna kosningaloforð þeirra. Heiðarlegra væri að segja það sem ég tel nokkuð víst að sé rétt – Sjálfstæðisflokkurinn vill það ekki einu sinni sjálfur. Sem dæmi þá er mun líklegra að nú muni koma fram þrýstingur innan úr Sjálfstæðisflokknum fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun, að lækka álögur, þá sérstaklega fasteignaskatt, fremur en að lækka raunkostnað foreldra á leikskólagjöldum.

 

Þegar ég ræði um heiðarleika í stjórnmálum fæ ég oft þau svör að allir stjórnmálaflokkar og allt stjórnmálafólk sé eins, við séum öll óheiðarleg. Ég er í fyrsta lagi alls ekki samála því, en það sem mikilvægara er, ég er ekki reiðubúin að leggja hendur í skaut og láta þessa froðupólitík sigra, hvar svo sem hana er að finna. Heiðarleiki í stjórnmálum skiptir máli og heiðarleikinn hefur áhrif á samfélagslegt traust sem skiptir gríðarlega miklu máli í lýðræðissamfélagi. Slíkt traust sköpum við ekki með því að bulla í kjósendum korter í kosningar, lofa einhverjum töfralausnum og geta svo ekki staðið við stóru orðin. Ég trúi því einlægt að við sem erum í stjórnmálum verðum að temja okkur heiðarlega umræðu, ræða opinskátt um hvað það er sem við getum gert og taka því alvarlega að segja líka frá því sem við teljum að við getum ekki gert. Það á hreinlega ekki að vera í boði að stjórnmálafólk leggi ekki fram raunverulegar áherslur sínar í aðdraganda kosninga og gefa aðeins í skyn að allt verði gert. Það er hins vegar hægt að segja frá raunverulegum áherslum og standa svo við það að leggja sig fram af heilindum við að þær áherslur verði að veruleika.

 

Hilda Jana Gísladóttir

Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri

Nýjast