20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fólkið, ferðalagið og vatnið
Á ferð minni um landið og reyndar önnur lönd þá elti ég menningu. Menning kemur fram í mismunandi formi, í gegnum listir, staðarhætti, tungumáli og mat svo eitthvað sé nefnt. Til þess að upplifa menningu þá þarf fólk að gefa eitthvað af sér og fyrir mér er það ferðaþjónusta. Það veitir mér mikla ánægju og lífsgleði að ferðast.
Stutta ferðalagið sem ég stunda oftast er opið nánast alla daga ársins. Ég skrepp oft til Indlands, Tælands og öðru hverju til Kúrdistan. Ég var svo heppinn einn daginn á spjalli við Moorthy eiganda Indian Curry House ásamt konu sinni Jothimani að þann dag var verið að búa til kryddblöndur. Ég finn þessa yndislegu lykt og spyr hvaðan hún komi. Jothimani hafði þá nýlokið við að búa til Garam masala sem ég fékk svo að smakka og taka prufu með mér heim til þess að leyfa fjölskyldunni að njóta. Ég er þakklátur þessu fólki að deila sinni þekkingu og menningu með mér, það veitir mér mikla gleði.
Afþreying er svo eitthvað sem skiptir máli á ferðalagi og þá oftar en ekki eitthvað sem er sérstakt og tengir mig við áfangastaðinn. Í Skagafirði er hægt að sækja mikla sögu, hesta og flúðasiglingar. Vestar togar selurinn og íslenska handverkið. Þegar að ég skrepp austur þá kemur jarðfræðin sterk inn, fossar, hraun og hellar. Sléttan, fuglar og kyrrðin þegar að ég fer lengra austur. Yfir vetrarmánuðina þá kemur ný sýn og nýir möguleikar og er það efni í annan pistil. Hvergi er hægt að stunda jafn mikið sport á vatni eða í sjó eins og á Norðurlandi. Möguleikarnir eru stundum of margir og það getur verið erfitt að velja.
Það er eitt sem passar alltaf í mínar ferðáætlanir, böð og laugar. Hvort sem það er vetur eða sumar þá er alltaf eitthvað sem togar mig í vatnið. Böðin tengjast okkur. Sundferðirnar byrja strax í æsku og þær hafa ekki vaxið af mér. Maður upplifir sundlaugarnar aftur með börnum og lærir að meta þann lúxus sem felst í þeim. Undanfarin ár eru böðin farin að taka meira vægi og sérstaðan í hverju baði er oft mikil. Vatnið er fjölbreytilegt og fólk í bæjum og sveitum hefur fært fórnir til þess að fjárfesta í þessum tækifærum. Böðin eru líklega eitt af því sem margir tengja við ferðaþjónustu og það er skiljanlegt, það kostar oft meira að fara í einkarekið bað eða heilsulind heldur en sundlaug sem rekin er af sveitarfélagi. Það kemur þó í ljós að margir eru tilbúnir að greiða uppsett verð fyrir þessa afþreyingu og ég tel að það sé tengingin við ræturnar okkar, sérstöðu landsins og menningu. Við samsvörum okkur við vatnið og það er orðin órjúfanlegur hluti af okkur.
Sumarið einkenndist af baðferðum og almennri gleði. Við fjölskyldan sóttum heim 6 einstaka baðstaði víðsvegar um landið. Jarðböðin, Sjóböðin, Hauganes, Sky Lagoon, Fontana, Bláa Lónið og Vök. Áður vorum við búin að fara í Giljaböð og líta við í Krauma. Næst á dagskrá eru Skógarböðin og við bíðum spennt eftir fréttum frá Skagaströnd varðandi baðstaða uppbyggingu þar.
Það er gott að enda þennan stutta pistil á því að þakka þeim sem gera okkur kleift að búa til svona minningar. Takk heimamenn alstaðar á landinu og ferðamenn sem mikilvægur hluti af jöfnunni.
Ég skora á Önnu Guðný Guðmundsdóttur að taka við keflinu.