FJÖLSKYLDAN PARKINSON OG ÞÚ
Nú þegar haustar og vetur er á næsta leiti er vetrarstarfið að hefjast hjá hinum ýmsu félagasamtökum. Þar er Parkinsonfélag Akureyrar og nágrennis engin undantekning.
Opið hús er nýmæli hjá félaginu en í vetur gefst félagsmönnum tækifæri til að hittast fyrsta fimmtudag í mánuði, bera saman bækur sínar, syngja, spila og spjalla.
Tilgangur Parkinsonfélags Akureyrar og nágrennis er tvíþættur:
a) Að sinna hagsmunum félagsmanna og vera málsvari þeirra, sem greindir eru með Parkinson á svæðinu.
b) Að sinna fræðslu og félagsstarfi fyrir þá, sem greindir eru með Parkinson og aðstandendur þeirra.
Fjölskyldan Parkinson og þú er yfirskrift haustfundar félagsins sem haldinn verður fimmtudaginn 29. september kl. 17:00 í Safnaðarheimili Glerárkirkju.
Gestir fundarins eru hjónin Sigríður Ó. Gunnlaugsdóttir og Magnús Þorkelsson en Magnús greindist með parkinson fyrir fjórtán árum. Sigríður og Magnús munu ræða reynslu sína af sambúð fjölskyldunnar við Parkinson og hvernig þau hafa nálgast verkefnið t.d. með því að halda fjölskyldu sinni og nánasta umhverfi upplýstu um stöðu mála.
Fjölskyldan Parkinson og þú er áríðandi umræðuefni og er fólk með Parkinson hvatt til að mæta á fundinn ásamt mökum, ástvinum, afkomendum og öðrum sem standa þeim nærri í baráttunni við sjúkdóminn.