Félag eldri borgara á Akureyri
Árið 1982 var ár aldraðra hjá Sameinuðu þjóðunum og hvatti Samband íslenskra sveitarfélaga öll sveitarfélög í landinu til að halda upp á það á einhvern máta. Félagsmálastjóri Akureyrar, Jón Björnsson, kallaði saman nokkra eldri borgara um vorið og varð árangurinn af því að Félag aldraðra á Akureyri var stofnað 3. október 1982 og er það því að verða 38 ára. Það var skipt um nafn á félaginu árið 1998 því sumir töldu nafnið fráhrindandi. Síðan heitir félagið Félag eldri borgara á Akureyri, oft skammstafað EBAK. Um 500 manns sóttu stofnfundinn sem haldinn var í Sjálfstæðishúsinu. Stofnfélagar voru 343, en auk þess gerðust 10 einstaklingar styrktarfélagar.
Félagið hafði starfað í tæplega hálft ár þegar verkalýðsfélögin á Akureyri ákváðu að gefa því hús sitt, Alþýðuhúsið við Lundargötu. Varð sá staður svo heimili félagsins í um 22 og hálft ár.
Fyrst um sinn var eitt aðalverkefni félagsins að sjá um opið hús, þar sem gjarnan var spilað og sungið. Það liðu ekki nema örfáir mánuðir áður en sótt var um lóðir fyrir íbúðarhús í Víðilundi og voru byggð þar tvö 30 íbúða fjölbýlishús og 13 raðhúsaíbúðir. Flutt var í húsin 1989 og 1990. Strax næsta ár var hafist handa við byggingu tveggja 35 íbúða fjölbýlishúsa við Lindasíðu, sem flutt var inn í 1993.
Félagsmiðstöð
Upp úr 2000 var rekstur Alþýðuhússins orðinn það íþyngjandi fyrir félagið að farið var að leita leiða til að komast í nýja aðstöðu. Árið 2005 var gerður samningur við Akureyrarbæ um að félagið fengi leigulausa aðstöðu í Bugðusíðu 1. Þetta sama ár var Alþýðuhúsið selt. Samningurinn við bæinn hefur verið endurnýjaður nokkuð reglulega. Með samningi sem samþykktur var í árslok 2017 var gerð sú stóra breyting að bærinn útvistaði umsjón og starfsmannahaldi í félagsmiðstöðinni í Bugðusíðu frá 1. júní 2018 til félagsins. Félagið sér því um starfsmannahaldið, greiðir laun og þess háttar en Akureyrarbær greiðir félaginu ígildi launa og launatengdra gjalda. Starfsstúlkurnar eru tvær og deila þær með sér tæplega einu stöðugildi, en sjálfboðaliðar úr hópi notenda leysa þær af, þegar á þarf að halda. Það er ánægjulegt að segja frá því að mikil aukning hefur orðið í fjölda notenda miðstöðvarinnar að undanförnu.
Í félagsmiðstöðinni er um 150 fermetra salur, eldhús, stólageymsla, skrifstofa EBAK, skrifstofa starfsfólks, snyrtingar, þrjú mislítil herbergi, sem nýtt eru fyrir handavinnu, málun, leshópa og ýmsa aðra samveru. Einnig er þar að finna sal fyrir snóker, en þar inni eru tvö borð, sem eru í notkun flest alla virka daga.
Megnið af starfseminni í Bugðusíðu 1 er á vegum nefnda félagsins, en einnig má nefna svokallað Pálínukaffi á mánudögum, opinn spiladag á miðvikudögum og Paravist á föstudögum. Starfsfólkið í Víðilundi sér um að leiðbeina í ýmis konar handverki, samkvæmt áðurnefndum samningi. Húsnæðið leyfir því miður ekki slíkt námskeiðahald nema í smáu sniði. Leikfimi á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum er einnig á vegum Akureyrarbæjar. Alla virka morgna er auk þessa boðið upp á að lesa dagblöðin, ræða þjóðmálin og fá sér kaffi.
EBAK barðist lengi fyrir styttingu á sumarlokun í báðum félagsmiðstöðvunum, en oft hafði verið lokað frá því um miðjan maí og fram í miðjan september, nema leyfi hafði verið gefið fyrir að spilað væri á spil einu sinni í viku á þeim tíma. Með þessum nýja samningi breyttist það, þannig að nú eru opið á báðum stöðum alla mánuði ársins, þótt starfsemin sé minni yfir sumarið.
Bærinn hafði áður leigt út salinn í Bugðusíðu 1, en með þessum samningi fluttist leigan yfir til félagsins og er salurinn oft leigður út, bæði til félaga og annarra.
Núverandi samningur rennur út um næstu áramót og er gert ráð fyrir að viðræður um nýjan samning hefjist í næsta mánuði.
Það er eitt stórt vandamál sem félagið hefur glímt við í mörg ár, en húsnæðið í Bugðusíðu er allt of lítið fyrir starfsemina og bitnar það orðið illilega á öllu starfi þar. Eldri borgurum fjölgar stöðugt og því eykst þetta vandamál með hverju árinu sem líður á meðan ekkert er að gert.
Starfsemi beggja félagsmiðstöðvanna heyrir undir samfélagssvið Akureyrarbæjar og bærinn rekur félagsmiðstöðina í Víðilundi 22.
Stjórn félagsins hefur komið að ýmsum verkefnum í samvinnu við bæinn, má þar nefna Brúkum bekki og leiðarkerfi strætisvagna.
Fjöldi félagsmanna nálgast nú 1.800 og fer stöðugt fjölgandi. Allir sem gerast félagar fá félagsskírteini sem gjaldkeri félagsins sér um að útbúa. Gegn framvísun þess veita mörg fyrirtæki víða á landinu félagsmönnum afslátt af vörum og þjónustu. Ný afsláttarbók með helstu upplýsingum um afslætti er nýkomin út.
Starfsemi félagsins er í stöðugri þróun og vill það gera sitt besta til að standa við sinn hluta samningsins við Akureyrarbæ. Þar kemur fram að bærinn og félagið vilji „taka höndum saman til að eldri borgarar eigi kost á eins góðu félags- og tómstundastarfi og þörf er fyrir hverju sinni, til að viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra, til að njóta efri áranna, eftir vilja og getu hvers og eins“.
Saman skulum við stuðla að því að efri árin verði hópnum til ánægju og yndisauka í góðum félagsskap.
-Hallgrímur Gíslason formaður EBAK.