Febrúar rósa og rjóma

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Í janúar eru óvenju margir dagar miðað við aðra mánuði eða þannig virkaði það allavega í ár. Eins og svo oft áður var stökkið frá veislugleði, steikum og eftirréttum yfir í hinn magra og tilbreytingarsnauða janúar, nokkuð hastarlegt. Myrkur og kuldi hjálpa þessum mánuði ekki neitt og þegar Covid bættist við, teygðist illilega á þessum fyrirrennara hins nýja árs.

Kirkjuárið sem á flesta helgidagana hefur engan vegin tekið tillit til þess að dreifa þeim jafnt yfir árið og því eru nokkrir mánuðir alveg lausir við lögboðna frídaga. Tríóið gamalkunna bollu-, sprengi- og öskudagur eru því sérstaklega ánægjulegt upphaf „föstunnar”.

Bolludagur er orðinn bolluvika, enda ótrúlega skemmtilegt að safna sýnishornum í eins og vikutíma, og ná að smakka bollur úr sem allra flestum bakaríum, dísætum og löðrandi í rjóma eins og vera ber. Allir eiga sínar uppáhaldsbollur og á meðan einhverjir vilja sínar góðu og gömlu klassísu með rjóma, sultu og súkkulaði eru aðrir meira fyrir að láta hugmyndaflugið ráða og stökkva glaðir á allar nýjungar, djúpsteiktar,krembollur fylltar með glaðlofti eða einhverju öðru góðgæti en alltaf með rjóma. Rjómi er enda mikil gæðafæða og hann má ekki koma úr rjómasprautu heldur á hann að vera þeyttur í skál og vera hnausþykkur og standa vel með bolluætunum.

Að bolluvikunni liðinni má svo loka maganum með hnausþykkri baunasúpu og vel feitu saltkjöti og samviskulausir foreldrar geta grynnkað verulega á nammibirgðum barna sinna. Hinn ameríski Valentínusardagur kemur svo þarna öðrum hvorum megin við og sjálfsagt er þá að bjóða elskunni sinni út að borða og færa henni eða honum gott súkkulaði.

Mánuðurinn nær svo hápunktinum með alískenskum konudegi og þá væntir allavega undirrituð að það verði aftur rjómi, rósir og súkkulaði. Þannig getum við þraukað væntanlega helgidagaleysi fram að páskum. Afleiðingar gleðinnar verða hugsanlega ræddar í öðrum bakþönkum.

Nýjast