20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Eru ekki allir sammála?
Ég ætla að hafa þennan pistil auðveldan. Ég ætla að skrifa um eitthvað sem allir eru sammála um. Það er svo gaman þegar allir eru sammála, þá stefna allir að sama marki. Ef allir eru svo sammála um hvernig á að ná þessu setta marki þá sammælast menn líka fljótt um nauðsynlegar aðgerðir eða aðferðir sem skila þeim þangað.
Þegar tveir félagar eru sammála um að fara að sjá nýja kvikmynd saman þá ákveða þeir dag, sem hentar báðum, mæla sér mót, hittast á staðnum og njóta svo myndarinnar. Þegar íþróttafélög og útgerðir í bæjar- eða sveitarfélögum eru sammála um að kominn sé tími á að lyfta iðkuninni á næsta stig þá eru settir peningar í verkefnið. Þeim er svo veitt í aðstöðu-, umgjarðar-, og leikmannamál og á Leifturhraða klifra þau upp deildirnar þangað til að viðunandi árangur þykir hafa náðst.
Þegar heil þjóð er nægilega upplýst til að vera sammála um nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við heimfaraldur þá eru allir reiðubúnir að taka þátt í aðgerðum, sinna sínu hlutverki og njóta svo ávinningsins af erfiðinu seinna - jafnvel strax í sumar. Þetta er allt svo einfalt þegar allir eru sammála. En hvað gerist þegar heil þjóð er sammála um að hér þurfi að starfrækja fyrirmyndar heilbrigðiskerfi og að til þess að það náist þá þurfi að leggja meiri pening í það? Í fyrstu virðist allt ganga eins og ætla mætti í máli þar sem almenn sátt ríkir um þörf og úrlausnir. Fjársvelti er viðurkennt, loforð eru sett fram og áætlanir til samræmis - en svo strandar á einhverju. Það virðist vera lagt upp með að ganga ekki frá samningum við lykilstéttir fyrr en eins seint í ferlinu og mögulegt er - og stundum enn seinna.
Heitri kostnaðarþátttöku kartöflunni er kastað á milli mismunandi sjúklingahópa, þegar ákall kemur um að létt sé á einstaka hópum, í stað þess að hún sé skræld, söltuð og stöppuð saman við aðalréttin og viðurkennd sem hluti af því sem þarf að laga í heildarmyndinni. Framkvæmdir til að tryggja að heilbrigðisstarfsemi fari ekki fram í of litlu eða jafnvel heilsuspillandi húsnæði fást treglega samþykktar og ganga hægt - jafnvel þó að innspýtingin við slíkar framkvæmdir gæti haft mótvægisverkandi áhrif þegar atvinnulíf hefur beðið hnekki vegna (ó)viðráðanlegra aðstæðna. Þegar allir stefna að sama marki og eru sammála um nauðsynlegar aðgerðir þá er furðulegt að slíkar hindranir dúkki upp. Raddir sem áður voru sammála breytast í efasemdaraddir og fara að nefna aðrar aðgerðir, jafnvel ótengdar heilbrigðiskerfinu, sem hugsanlega gætu verið betri ráðstafanir á opinberum fjármunum. Þeir sem áður voru sammála standa nú fyrir Sandblæstri og málmhúðun í augu þeirra sem enn hafa ekki misst sjónar af hinu upphaflega marki sem allir voru sammála um.
Það hefur sýnt sig að það er furðulega margt sem hægt er að hrinda í framkvæmd þrátt fyrir að allir séu ekki sammála, þurfum við ekki eitthvað að fara að skoða af hverju það sem allir eru sammála um gengur hvorki né rekur? Af hverju ættu vinirnir tveir sem að höfðu þegar sammælst um að fara saman á mynd hér í upphafi allt í einu, þegar á hólminn er komið, að hverfa frá þeirri hugmynd á bílastæðinu fyrir utan kvikmyndahúsið og halda hvor um sig aftur heim til sín, sárir, svekktir en allra helst undrandi á því að þeir hafi ekki náð að sjá myndina sem þeir höfðu hlakkað svo til? Látum ekki stoppa okkur á bílaplaninu fyrir utan bíóið. Förum að gera það sem við höfum öll verið sammála um svo lengi. Eftir það getum við svo tekið stöðuna og farið að rífast um staðsetningar heilbrigðisaðstöðu, flugvalla eða fiskistofa og fleiri atriði sem menn eru - eðlilega - ekki sammála um. Eru ekki allir sammála um það?
Ég ætla að skora á Arnar Árnason, iðnaðartæknifræðing og bónda á Hranastöðum, að skrifa næsta pistil.
-Freyr Brynjarsson