20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Er unga fólkið afgangs?
Mat á því hvað er barni fyrir bestu er gjarnan í höndum fullorðinna. Þeir fullorðnu bera ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni. Þeir sem taka ákvarðanir hafa yfirsýn og framtíðarsýn. Þannig ættum við að gera allt sem er börnum fyrir bestu. Í febrúar árið 2019 var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða í sveitarstjórn Norðurþings: „Lagt er til að sveitarfélagið Norðurþing hefji nú þegar undirbúning að uppbyggingu félagsmiðstöðvar og ungmennahúss á Húsavík‟. Tillagan var aftur samþykkt samhljóða í apríl sama ár. Enn var tillagan samþykkt samhljóða í júní það sama ár. Því miður hefur ekkert gerst í þessu máli.
Alltaf til bráðabirgða
Á sínum tíma var rekin félagsmiðstöð í Túni eða gömlu sýsluskrifstofunni. Sveitarfélagið er eigandi hússins sem var og er komið í viðhaldsþörf. Húsið var tekið undir aðra starfsemi og félagsmiðstöð var færð í kjallarann í Framhaldsskólanum. Þar var unga fólkið gestir enda húsnæðið ekki þeirra. Það þýðir að þau geta ekki gert húsnæðið að sínu og þurfa að skilja við staðinn eins og komið var að honum. Í upphafi sumars sagði Framhaldskólinn upp leigunni og félagsmiðstöðin orðin húsnæðislaus. Enn er fundið bráðabirgðahúsnæði fyrir félagsmiðstöðina, nú í gömlu bifreiðastöðinni við Vallholtsveg. Þar er rekin félagsmiðstöð fyrir börn og ungmenni á Húsavík og nágrenni. Sömuleiðis verður starf fyrir tíu til tólf ára í húsnæðinu og frístund fyrir fatlaða.
40 og 89+?
Samkvæmt úttekt Slökkviliðs Húsavíkur á húsnæðinu geta að hámarki 40 einstaklingar verið þar í einu. Tveir einstaklingar á einn fermetra. Í Borgarhólsskóla eru 89 nemendur á aldrinum þrettán til sextán ára. Innan við helmingur nemenda gæti sótt starfið í félagsmiðstöðinni hverju sinni. Kannski er metnaður okkar ekki meiri en svo að við sættum okkur við að 25 nemendur mæti. Síðastliðin kvöld hafa á milli 40-50 nemendur sótt félagsmiðstöðina. Þess vegna er mikilvægt að bregðast við að vökva það sem við viljum að vaxi. Að öðrum kosti fækkar þeim sem sækja félagsmiðstöðvarlífið.
Í Borgarhólsskóla eru 60 nemendur á aldrinum tíu til tólf ára. Tveir af hverjum þremur gæti sótt starfið. Þá eru ótaldir þeir nemendur í sveitarfélaginu sem sækja aðra grunnskóla. Það er mikilvægt að hlúa að þeim einnig með því að bjóða þá velkomna og kynnast jafnöldrum sínum. Við þurfum nefnilega að hugsa þetta aðeins lengra með Framhaldsskólann á Húsavík í huga. Það er einmitt á unglingsárunum sem samskiptin mótast og þroskast til varanlegrar vináttu.
Sorglega lítill metnaður meirihlutans
Unga fólkinu er lítill sómi sýndur og metnaður meirihlutans klénn í meira lagi. Það vantar húsnæði; nýtt eða notað. Meirihlutinn hefur ítrekað samþykkt tillögur minnihlutans þess efnis að bregðast við en hafnaði nýlega að tillögu til að bæta stöðuna. Sú tillaga fól í sér að hafist verði handa við byggingu sem myndi hýsa félagsmiðstöð, starfsemi Frístundar og ungmennahúss á Húsavík. Byggingin verði á svæðinu í kringum Borgarhólsskóla, Íþróttahöllina og Tún. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 takið mið af þessu. Þessu hafnaði meirihlutinn og unga fólkið er enn í óvissu við óboðlegar aðstæður og gestir í eigin starfsemi. Hrund Ásgeirsdóttir lagði til á fundi fjölskylduráðs í byrjun þessa mánaðar að félagsmiðstöð yrði aðeins starfsrækt í núverandi húsnæði til áramóta á meðan aðrir möguleikar yrðu kannaðir. Meirihlutinn greiddi sömuleiðis atkvæði á móti þeirri tillögu.
Foreldrar barna, fólk sem starfar með börnum og ungmennum á þessum vettvangi og fleiri sem hafa hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi hafa margsinnis upplýst kjörna fulltrúa um stöðu mála. Við verðum að bregðast við og gera betur.
Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjórnarfulltrúi, B.
Hafrún Olgeirsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi, E.
Hjálmar Bogi Hafliðason, sveitarstjórnarfulltrúi, B.
Hrund Ásgeirsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi, B.