20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Eldra fólk og Píratar
Eldra fólki á Íslandi fjölgar hraðar en yngra fólki. Ástæðan er lækkandi fæðingartíðni og hærri meðalaldur. Þetta þýðir ýmsar áskoranir fyrir okkur næstu árin og áratugina. Hver á hlutur þessa hóps að vera í samfélaginu, hvernig á heilbrigðisþjónustan að vera, hvar á þetta fólk að búa o.s.frv.?
Undirritaður hefur fylgst með málefnum eldra fólks um langt skeið, sérstaklega þeim sem snúa að búsetuúrræðum þess. Ég þykist þess fullviss að eldra fólk á Öldrunarheimilum Akureyrar hafi fengið góðan viðurgjörning mörg undanfarin ár, a.m.k. í samanburði við ýmis önnur öldrunarheimili landsins, enda hefur virðing, heimilisbragur og hlýja Edenstefnunnar verið í forgrunni þess starfs sem þar hefur verið unnið.
En hækkandi meðalaldur Íslendinga kallar á nýjar nálganir. Það verður ógerlegt að ætlast til þess að eldra fólk flytjist áfram í sama mæli á öldrunarheimili og hingað til hefur verið raunin.
Halldór Guðmundsson, fyrrverandi forstöðumaður Öldrunarheimila Akureyrar, kynnti á heilbrigðisþingi fyrir nokkrum vikum áhugaverðar tillögur að því hvernig við ættum að búa að eldra fólki næstu áratugina.
Ákveðinn samhljóm má finna í tillögum Halldórs og í kosningastefnu Pírata um málefni eldra fólks. Þar má nefna samþættingu á þjónustu, að fólki verði gert kleift að búa sem allra lengst heima ef það kýs það, að eldra fólk fái haldið reisn sinni, mannréttindum og virðingu, að það ráði sínum málum sjálft, að dregið verði úr félagslegri einangrun og svo mætti lengi telja.
Við Píratar teljum það einfaldlega vera hlutverk hins opinbera að auðvelda fólki að lifa lífi sínu eins og það sjálft vill, en ekki að leggja steina í götu þess.
Í skýrslu Halldórs er m.a. að finna eftirfarandi brýningu:
Breyta þarf viðhorfum, væntingum og hegðun gagnvart eldra fólki með því að vinna að Aldursvænu samfélagi. Aldursfordómar endurspeglast í hvernig við hugsum (staðalímyndir), hvernig okkur líður (fordómar) og hvernig við hegðum okkur (mismunun) gagnvart öldruðum eða sjálfum okkur á grundvelli aldurs.
Barátta gegn aldursfordómum felur meðal annars í sér að afnema ýmis lagaákvæði og reglur sem skerða mannréttindi og mannvirðingu eldra fólks. Atorka og dugnaður þeirra sem eldri eru hafa skapað þau lífsgæði sem við hin yngri fáum að njóta. Meginstef okkar Pírata í málefnum eldra fólks eru velsæld, öryggi, samráð og virðing. Tryggjum eldra fólki lífsfyllingu og ánægju á ævikvöldinu á grundvelli þeirra.
Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi
og áhugamaður um málefni eldra fólks, eins og lesendur Vikublaðsins vita mætavel.