20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Eigi leið þú oss í freistni
Ingólfur Sverrisson skrifar
Lengi hafa freistingar verið litnar hornauga í mannheimi og það svo að í sjálfu Faðirvorinu er Guð almáttugur vinsamlega beðinn að forðast að leiða okkur ófullkomna menn í freistni. Aðrir benda á að húsbóndinn í neðra hafi sérhæft sig í að nýta freistingar til að ná fólki á sitt vald. Þess vegna væri vænlegra til árangurs að snúa sér þangað og óska að hætt verði að brúka þennan veikleika okkar vafasömum málstað til framdráttar. En hvað sem því líður glímdi ykkar einlægur í æsku við freistnivanda sem var öðrum ásæknari og um leið hættulegri; það var vatnasvæðið neðst og syðst á Eyrinni og gekk undir nafninu Ósinn. Þar voru ýmsar freistingar sem sannarlega þurfti að varast – sérstaklega síðvetrar og á vorin.
Ósinn sá arna var það sem eftir lifði af Glerá sem þarna rann í árdaga til sjávar suður í Pollinn og myndaði Oddeyrina. Um miðja síðustu öld voru öskuhaugar Eyrarbúa vestast í Ósnum og rottur og fleiri kikvendi þar á ferð nætur og daga. Okkur strákunum þótti áhugavert að fylgjast með lífi þessara nagdýra og hvernig þau skutust um haugana og reyndu að lifa frá degi til dags af því sem þeir gáfu af sér. Þar var sjálfbjargarviðleitnin sannarlega í heiðri höfð.
Á veturna fraus Ósinn austan hauganna. Við það myndaðist forláta skautasvell sem tók öðrum svellum fram enda slétt og gott yfirferðar. Þá mátti oft sjá börn og fullorðna skauta um allan Ósinn og boðið upp á hinar fjölbreytilegustu skautakúnstir og jafnvel dansspor hjá þeim sem lengra voru komin. Auk þess reyndu þau galvöskustu sig í skautahlaupi. Æstist leikurinn þá svo mjög að betra var að verða ekki fyrir, því brautir voru ekki markaðar eða neitt uppi sem minnti á þróaða íþróttaviðburði; gleðin var eina viðmiðið í þessum ærslum öllum. Þegar leið á veturna tók ísinn á Ósnum smátt og smátt að þynnast og að lokum brotnaði hann í marga fleka. Það var einmitt þá sem freistingarnar báru okkur strákana stundum ofurliði. Er hægt að hugsa sér æsilegri leik en að fara á þessa glerhálu ísfleka, ýta sér með priki út á Ósinn og sigla þar um eins og sá einn sem valdið hefur? Auðvitað vissum við að þetta gat verið hættulegur leikur enda höfðu foreldrar okkar harðbannað að láta okkur svo mikið sem detta annað eins í hug hvað þá að framkvæma þvílíka ósvinnu. En freistingin er útsmogin og lævís og lætur mann stundum gleyma hættunum og skynsemin verður undan að láta því þetta var svo óendalega skemmtilegt! Svo gerðist það stundum að við Árni bróðir féllum í Ósinn og þurftum að troða marvaðann til að ná landi. Komum við bræður þá frekar skömmustulegir rennblautir heim þar sem móttökurnar voru í slöku meðallagi.
Þegar svona var komið gátum við ekki með nokkru móti skellt skuldinni á Guð almáttugan - að hann hafi leitt okkur í þessa freistni; það gerðum við algjörlega á eigin ábyrgð, tókum áhættuna, létum vaða og þegar illa fór sátum við sneyptir uppi með skömmina og allt sem henni fylgir.
Ingólfur Sverrisson