20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ég er jafnaðarmaður
Benóný Valur Jakobsson skrifar
Mig langar með nokkrum orðum að útskýra hvað það þýðir í mínum huga þegar ég segi: „Ég er jafnaðarmaður“ og þá aðeins hvað það þýðir í mínum huga. Ég ætla ekki að leggja öðrum hugsun eða orð í munn.
Mér var sögð saga af langafa mínum sem efalaust hefur eitthvað verið færð í stílinn en meitlar samt í mínum huga inn kjarna jafnaðarhugsjónarinnar, saga sem mótaði mig sem ungan mann og hefur enn sterk ítök í mínu lífi.
Sagan er einhvern veginn á þessa leið:
Langafi minn bjó ásamt langömmu og fimm börnum í lítilli íbúð, þau voru svo heppinn að eiga kú sem þau höfðu í kjallaranum. Á hverjum morgni var kúin mjólkuð og börnin á heimilinu fengu eitt glas af mjólk hvert, síðan afgangurinn af mjólkinni tekinn og honum dreift til nágrannabarna sem ekki voru jafn heppin og þeirra börn. Aðspurður hversvegna hann gerði þetta var svarið einfalt. „Okkur ber skylda til þess að aðstoða þá sem ekki vegnar jafnvel í lífinu”.
Grunnstoð jafnaðarhugsjónarinnar
Okkur ber skylda til þess að aðstoða þá sem ekki vegnar jafn vel í lífinu er einfaldlega í mínum huga grunnstoð jafnaðarhugsjónarinnar. Þegar þín börn og þitt fólk hafa fengið nóg þá ber þér skylda til að láta þá sem ekki búa við sömu lífsgæði hafa brot af því sem þú átt eftir.
Jöfn tækifæri
Í mínum huga á þetta sérstaklega við um börn. Okkur ber skylda til þess sem samfélag að sjá til þess að öll börn hafi jafnan rétt til menntunar og heilbrigðisþjónustu sama hver staða foreldra, forráðamanna og aðstandenda er. Okkur ber skylda til þess að öll börn á Íslandi hafi skilyrðislaust jafnan rétt á því að verða hvað og hver sem viðkomandi langar til. Jöfn tækifæri eru einnig órjúfanlegur partur jafnaðarhugsjónarinnar.
Okkur ber líka skylda til þess sem samfélag að grípa þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki séð sér og sínum farborða og gera öllu fólki kleift að lifa mannsæmandi lífi með þeirri reisn sem við teljum sjálf vera grundvallarmannréttindi.
Í stuttu máli sagt þá ber okkur sem erum svo heppinn að eiga afgangs mjólk, skylda til að láta aðra sem ekki eru jafn heppnir fá af okkar til þess að allir eigi jöfn tækifæri til þess að þroskast og dafna á sínum forsendum. Þess vegna er ég jafnaðarmaður.
Höfundur er oddviti S lista í Norðurþingi