Brosandi og berrössuð

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Börn eru miklir snillingar. Sunnan heiða á ég lítinn frænda sem er sex ára, og mamma hans leyfir okkur stundum að heyra af ýmsu sem hann brasar. Einn daginn tók mamma hans eftir því að hann horfði með óskiptri athygli á nýju Nova auglýsinguna, þið vitið þessa með bera fólkinu. Hún sagði ekki neitt en beið eftir viðbrögðunum, -sem létu ekki á sér standa. Hann leit á mömmu sína og sagði „það eru allir svo glaðir!". Það var það sem honum fannst athyglisvert við auglýsinguna. Hann sá fullt af glöðu fólki.

Það að líta á nekt sem eitthvað óviðurkvæmilegt og jafnvel klámfengið á sér upptök í hugskoti okkar sem erum fullorðin. Líklega arfur af skömm kynslóðanna, innprentuð af kennimönnum sem predikuðu gegn holdsins lystisemdum og settu laufblaðið á Adam og Evu.

Nútíminn sem photosjoppar fullkomna líkama ýtir svo undir skömmina.   Nakin erum við allskonar en þó hvert öðru lík, með öllum okkar skavönkum, bólum og fellingum. Flest þekkjum við einmitt söguna af keisaranum sem hélt að hann væri yfir aðra hafinn í pelli og purpura en í raun var hann bara rogginn kall á sprellanum og það þurfti barn til að sjá í gegnum blekkinguna.

Börnin fara með okkur í sturtuklefana í sundlaugunum, þar sem allir sápa sig naktir nema kannski einstaka útlendingur við lítinn orðstí. Þau læra þar að nekt sé eðlileg og sjálfsögð og að öll séum við jöfn í nektinni. Þau læra jafnvel að tengja bera skrokka við gleði og góðar athafnir eins og það að fara í sund. Og af auglýsingu eins og þeirri sem ég gat um í upphafi,  geta þau lært að við erum mismunandi í laginu og það er allt í lagi.

Að svo mæltu legg ég til að við klæðum okkur vel í kuldanum og njótum þess að horfa á glöðu strípalingana í auglýsingunni. Af því að þar eru allir svo glaðir!

-Inga Dagný Eydal

Nýjast