Brátt hækkar sól

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson.

Þau lýsa fegurst, er lækkar sól, í blámaheiði, mín bernsku jól.

Ljóð Stefáns frá Hvítadal sem ber einfaldlega heitið Jól hefur alltaf verið mér hugleikið og þá einnig einstaklega fallegt lagið sem Jórunn Viðar samdi við það. Það er í því einhver tærleiki og fegurð barnæskunnar og barnatrúarinnar.

Aðventan er venjulega líflegur tími hjá okkur flestum. Vinir og fjölskyldur hittast og gera sér glaðan dag og á flestum vinnustöðum er hefð fyrir einhvers konar jólagleði. Árið í ár verður frábrugðið því sem við eigum að venjast vegna baráttunnar við veiruna. Þær skorður sem veiran setur okkur varðandi félagslíf eru vissulega íþyngjandi en eru nauðsynlegar til að vernda líf og heilsu fólks.

Viðbúin bjartari dögum

Það er hins vegar ekki aðeins félagslíf okkar sem breytist því fjölmargir, fólk og fyrirtæki, hafa orðið fyrir alvarlegu höggi vegna veirunnar. Ríkisstjórnin hefur brugðist við því með fjölmörgum aðgerðum til að skapa viðspyrnu fyrir Ísland. Ríkissjóður stóð vel vegna ábyrgrar stjórnunar síðustu ár og getur því betur tekið á sig auknar byrðar tímabundið með skuldsetningu. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem síðast voru kynntar eiga að stuðla að öflugri viðspyrnu þegar heimurinn opnast að nýju. Hlutabótaleiðin verður framlengd til sumars, atvinnuleysisbætur hækkaðar, boðið upp á fleiri félagsleg úrræði og boðið upp á sérstaka viðspyrnustyrki sem hafa það að markmiði að þekkingin hverfi ekki úr fyrirtækjunum með uppsögn lykilstarfsfólks, að fyrirtækin verði ekki lömuð þegar við loks lítum bjartari daga. Sérstökum ívilnunum verður einnig beitt til að auka kraft og fjárfestingu í einkageiranum sem er nauðsynlegt til að skapa störf og auka verðmætasköpun í samfélaginu.

Þessar aðgerðir ríma við það sem ég sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra: Verkefni okkar í stjórnmálunum næstu mánuði væri skýrt: atvinna, atvinna, atvinna. Við þurfum að vernda störf og skapa störf. Þar erum við í Framsókn á heimavelli því saga okkar er samofin atvinnuuppbyggingu landsins.

Hingað mun fólk vilja koma

Við þekkjum öll mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnu. Hún er augljóslega lykillinn að hraðri viðspyrnu. Við sáum það í ferðum okkar um landið í sumar hversu metnaðarfull uppbygging ferðaþjónustunnar hefur verið. Nú standa flest hótel tóm og tækifæri þeirra sem störfuðu í ferðaþjónustu fá og jafnvel engin. En, og þetta er mikilvægt en, allir þeir glæstu innviðir sem byggðir hafa verið upp, hvort heldur í samgöngum eða gistingu, öll sú þekking sem ferðaþjónustufólk hefur öðlast og síðast en ekki síst náttúran, landið sjálft, er enn til og bíður þess að ferðalangar leggi leið sína að nýju til okkar. Því hingað mun fólk vilja koma. Þá mun aftur lifna yfir landinu.

Eftir vetur kemur vor

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegra jóla og vona að þú finnir leið til að njóta aðventu og hátíðar við þessar einkennilegu aðstæður. Fréttirnar sem okkur berast þessa dagana af bóluefnum gefur okkur von um að með vorinu sjáum við aftur glitta í eðlilegt líf. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.

Lýstu þeim héðan
er lokast brá,

heilaga Guðsmóðir,
himnum frá.

-Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 

 

 

Nýjast