Bjargar kórónaveiran heiminum?
Á einu augabragði var heilu samfélagskerfunum umturnað vegna kórónuveirunnar. Við féllumst á að umturna háttum okkar, féllumst á að umturna persónulegu lífi, féllumst á að afsala okkur drjúgum hluta þess frelsis sem við höfðum gengið að sem gefnu. Af því að okkur var sagt að lífið og heilsan væru undir. Vísindamenn sögðu okkur það. Við féllumst á að hugsa veröld okkar upp á nýtt. Við játuðum möglunarlaust þegar vísindamenn bönnuðu okkur að ferðast milli staða eða heimsækja vini og ættingja. Við hlýddum án athugasemda þegar okkur var sagt að bannað væri að heimsækja ástvin á dánarbeði. Við felldum tár en deildum hvorki við vísindin né börðum hnefunum í borðið. Á einu augabragði hægðum við á umsvifum okkar, breyttum hegðun með svo róttækum hætti að vart eru fordæmi fyrir öðru eins. Af því að vísindamenn sögðu okkur að vá væri fyrir dyrum. Af því við sáum engan kost betri en fara eftir tilmælum vísindanna.
Nýir tímar fram undan?
Þetta var ansi mikil breyting frá því sem verið hefur og freistandi að spyrja hvort nýrra tíma sé von. Ákallið um algjört frelsi, þar á meðal frelsi til að fara til helvítis, hefur verið ansi lífseigt og í flestum tilvikum trompað boðskap vísindanna til þessa. Þannig má nefna sem dæmi að þegar hugrakkir vísindamenn hafa stigið fram á sjónarsviðið og boðað mikilvægi róttækra lífstíls -og samgöngubreytinga vegna yfirvofandi hamfarahlýnunar, hefur sá málflutningur að jafnaði mætt daufum eyrum. Loddarar sem lofa munnfylli í kvöld en kraftaverki á morgun hafa aftur á móti notið mikilla vinsælda en allt í einu var eins og skrúfað hefði verið niður í þeim sem starfa við að halda því fram að hið ósjálfbæra sé sjálfbært. Skrúfað niður í þeim sem hafa haft hagsmuni af óbreyttu ástandi, þ.á.m. þeim sem hafa gert hvað þeir geta til að gera umhverfisvísindi tortryggileg. Það var eins og að þeir misstu gjallarhornið sitt í gólfið og enginn hjálpaði þeim að taka það upp. Allt í einu voru það bara nokkrir minnihlutakverúlantar úti í horni sem vældu út í tómið vegna þess að þeim fannst sóttvarnaraðgerðirnar of hamlandi. Öðruvísi okkur áður brá.
Ljós vísindanna vísi veginn
Árið 2020 var þess vegna ekki alslæmt þótt það skilji eftir sig djúp spor missis og sorgar hjá sumum okkar. Árið var til marks um forgangsröðun sem spurði spurninga um viðnám gegn hamfarahlýnun af mannavöldum. Við höfðum val um að hada óbreyttri stefnu, láta líkin hrannast upp, kalla óbætanlegt heilsutjón yfir þann hluta þjóðarinnar sem er veikastur fyrir. En við gerðum það ekki. Við kusum að hlusta á vísindamennina, kusum að hlýða þeirra ráðleggingum.
Sú staðreynd hlýtur að færa nýja von inn í umhverfismálin. Þegar Ísland og umheimurinn hafa sýnt að hægt er að kúvenda frá fyrri stefnu hlýtur að verða auðveldara að ræða róttækar aðgerðir, sem grípa þarf tafarlaust til svo hægt sé að hamla gegn hnattrænni hlýnun. Faraldurinn, viðbrögð fræðimanna við honum og mótefnið gegn veirunni sem við fáum vonandi öll notið innan tíðar, hefur þannig eflt trú almennings á vísindi um allan heim og æft okkur í því sem gera þarf þegar hættuástand skapast. Þegar vísindin gefa það út að í umhverfismálum sé breytt hegðun ígildi farsóttarmótefnis, verðum við að leggja við hlustir. Umhverfisvísindi bjarga mannslífum ekki síður en bóluefni bjargar okkur gegn covid-veirunni. En til að svo geti orðið verðum við að leyfa ljósi vísindanna að vísa okkur veginn. Og af því að hægt hefur á heiminum öllum vegna faraldursins gefst vonandi aukið næði til að hugsa og setja hluti í samhengi.
Af því að lífið sjálft er undir
Það væri gleðilegt ef við gætum búið komandi kynslóðum örugga framtíð, ekki bara hvað varðar viðbrögð gegn farsóttinni heldur til lengri tíma í umhverfismálunum. Spár um loftslagsbreytingar segja okkur að þörf hefur skapast á róttæku viðbragði. Við þurfum að standa með vandaðri vísindaþekkingu, bæði náttúru- og hugvísinda, við þurfum að breyta hegðun til að markmiðum um sjálfbæra framtíð verði náð. Af því að lífið sjálft er undir. Líf barna okkar og barnabarna. Við höfum engan rétt á að svipta afkomendur okkar sjálfsögðum lífsgæðum og tilverurétti. Nýtum afleiðingar kórónuveirunnar til vakningar í umhverfismálum. Nýtum lærdóminn til að bjarga heiminum.
(Höfundur er rithöfundur og blaðamaður)
Ég skora á Stefán Þór Sæmundsson kennara og rithöfund að skrifa næsta pistil.