Betri frístund, aukin tengsl

Hanna Jóna Stefánsdóttir
Hanna Jóna Stefánsdóttir

Hanna Jóna Stefánsdóttir skrifar

Kæru íbúar. Senn líður að sveitastjórnarkosningum, sem hefur þó líklega ekki farið framhjá mörgum undanfarið. Það er vor í lofti, ákveðin spenna og ég tel að það sé ástæða til bjartsýni (það er það nú að vísu alltaf).

Eftir að hafa búið í rúm tíu ár í burtu frá Húsavík var afskaplega gott að flytja aftur heim fyrir tæpum þremur árum og búa sér heimili í okkar fallega bæ. Hér kjósum við að eiga heima og einhver er nú ástæðan fyrir því. Hér eigum við gott, öflugt og þegar á reynir samheldið samfélag. Í sveitarfélaginu eru gríðarlega góð atvinnutækifæri á fjölbreyttum grunni, þ.e. allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Kannski er það ekki meira en vanalega en ég tek eftir því að fólk á mínum aldri (milli 30/40 ára) hefur í auknum mæli kosið að flytjast aftur á heimaslóðir eftir að hafa farið burtu, ýmist menntað sig, kannað heiminn, fundið sér maka og jafnvel eignast börn og ákveður loks að flytja aftur heim til að ala hér upp börnin sín. Það er svo frábært! Margt gerir Norðurþing vel, líkt og að taka inn til aðlögunar á leikskólann börn við eins árs aldur, sem er til mikillar fyrirmyndar og hefur sannarlega aðdráttarafl fyrir ungt fólk að setjast hér að.

En betur má ef duga skal!

Eins og mörgum er kunnugt um er aðstaða frístundar hér á Húsavík til skammar, og allflestir sammála um það. Það er virkilega brýnt að farið verði í það strax á nýju kjörtímabili að finna viðunandi niðurstöðu og hefja framkvæmdir á nýju frístundarhúsnæði fyrir börn og ekki síður starfsmenn frístundar.

Eins er mikilvægt að við hugum einnig að eldri börnum og unglingum sveitarfélagsins líkt og þeim sem stunda nám við Framhaldsskólann okkar. Við hljótum öll að geta sammælst um mikilvægi þess að börnin okkar hafi viðunandi aðstöðu til að stunda félagsstarf.

Svo er ekki í dag og því þarf að breyta! Ég tel að strax þurfi að bregðast við í þessum málaflokki að loknum kosningum sem stuðlar að því að sú kynslóð sem nú er á „félagsmiðstöðva-aldri“ kjósi að flytjast aftur heim eftir að hafi farið í burtu að mennta sig. Hvað á ég við með því? Jú, þegar ég var á þessum aldri þá höfðum við aðstöðu (sem í þá daga þótti viðundandi) til að rækta félagsleg tengsl okkar á milli, í Keldunni og eins í Túni, sem gerði það að verkum að hér var gaman, félagslífið var virkt og aðstaða var til staðar. Því var það aldrei vafamál hvar mig langaði að búa þegar ég yrði fullorðin.

Eins tel ég gríðarlega mikilvægt að styrkja, já eða hreinlega hefja tengsl á milli barnanna í grunnskólum sveitarfélagsins, bæði með því að fá börnin í Lundi og á Raufarhöfn hingað til Húsavíkur og eins að börn á Húsavík fari austur.

Að lokum kæru kjósendur, kynnið ykkur málefnin og stefnur flokkanna sem eru í framboði. Takið svo í framhaldi upplýsta ákvörðun og mætið á kjörstað.

Hanna Jóna Stefánsdóttir

Skipar 6. sæti á lista Framsóknarflokks og félagshyggju.

Nýjast