20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bestu kveðjur
Ingibjörg Isaksen skrifar
Á laugardag göngum við til sveitarstjórnarkosninga. Það er í senn ánægjulegt og þakkarvert að sjá hve margir eru reiðubúnir til að bjóða sig fram til starfa fyrir sitt nærsamfélag. Allir eiga það sameiginlegt að vilja gera sitt samfélagið enn betra.
Frambjóðendur Framsóknar hafa undanfarna daga og vikur farið um bæinn og kynnast íbúum, fyrirtækjum og þeirri þjónustu sem í boði er í bænum betur. Slíkt samtal og reynsla er ómetanleg fyrir einstaklinga sem ætla að starfa fyrir bæjarbúa næstu fjögur árin.
Vel hefur verið tekið á móti þeim og er gott að finna meðbyrinn sem frambjóðendur fá sem leggja nú allt sitt í að tryggja sem bestan árangur nk. laugardag. Til að Framsókn geti komið sínum áherslum á framfæri og í framkvæmd þurfum við þinn stuðning, kæri íbúi.
Af hverju á að kjósa Framsókn?
Þegar öllu er á botninn hvolft á skiptir samvinna höfuðmáli, og það á sérstaklega vel við á sveitarstjórnarstiginu. Framsókn leggur áherslu á samvinnu innan bæjarstjórna, nefnda og ráða sem og samvinnu við íbúa. Það eru vissulega þeir sem þiggja þjónustuna og það er hlutverk bæjarfulltrúa að hlusta og mæta þeim sjónarmiðum því jú, þeir eru í vinnu fyrir bæjarbúa. Við í Framsókn höfum lagt ríka áherslu á samvinnu og mikilvægi þess að mæta sjónarmiðum.
Framsókn vill fjárfesta í fólki þar sem manngildi er ofar auðgildi. Þetta gerum við með því að hlúa að einstaklingnum og veita honum þá bestu þjónustu sem völ er á.
Síðast en ekki síst, þá býr Framsókn yfir frábærum mannauði. Hér á Akureyri er það engin undantekning. Almennt er það þannig á sveitarstjórnarstiginu að fólk veit hver verkefnin fram undan eru. Áherslur milli flokka eru oftar en ekki sambærilegar. Þá skiptir öllu máli að hafa kröftugt fólk í framboði sem hefur vilja og getu til að leysa hnúta, vinna saman og ganga í framkvæmdir. Á lista Framsóknar á Akureyri situr traust fólk í hverju sæti sem státar af mikilli og breiðri reynslu. Það er hér til að gera gott samfélag enn betra og laga það sem laga þarf.
Það skiptir öllu máli að hafa fólk með reynslu og traust. Fólk sem vinnur af samviskusemi, samheldni og með samvinnu að leiðarljósi.
Nýtum kosningaréttinn
Að lokum vil ég hvetja alla til að mæta á kjörstað og nýta kosningarétt sinn. Með því höfum við áhrif á okkar nærsamfélag. Einnig viljum við í Framsókn á Akureyri biðla til þín, kjósandi góður, að veita Framsókn traust til starfa fyrir þig og setja X við B á kjördag.
Undirrituð er fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis