Besta loftslagsstefnan uppfærð
Um fátt hefur verið jafn mikið rætt undanfarna viku og skýrslu loftslagsnefndar SÞ, sem sýnir nauðsyn þess að grípa til aðgerða - og það strax. Píratar hafa um árabil haft metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, svo eftir hefur verið tekið. Þannig voru Píratar einfaldlega taldir með bestu loftslagsstefnuna fyrir síðustu kosningar. Hún hefur nýlega verið uppfærð eftir mikla vinna grasrótar og frambjóðenda undanfarna mánuði og má segja að hún svari ákalli ofangreindrar loftslagsskýrslu um aðgerðir.
Í umræddri stefnu segir m.a.:
Loftslagsmálin eru án efa eitt af stærstu viðfangsefnum samtímans. Við Píratar erum tilbúin í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til að byggja upp græna og sjálfbæra framtíð. Á sama tíma vitum við að fram undan eru óumflýjanlegar umbreytingar á veröld okkar sem Íslendingar, eins og heimsbyggðin öll, þurfa að búa sig undir. Við sjáum fyrir okkur samfélag og lífríki sem blómstrar þrátt fyrir þau risavöxnu verkefni sem glíma þarf við.
Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í að leiðrétta loftslagsógnina. Við viljum ná því með því að byggja upp græna og sjálfbæra framtíð, sem krefst opinberra fjárfestinga með tilheyrandi tækifærum til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Við viljum búa til skattalega hvata fyrir atvinnulífið til að grænvæðast, styrkja græna sprota, koma í veg fyrir stuðning við mengandi stóriðju, auka fæðuöryggi með því að efla íslenska matvælaframleiðslu, styðja við deilihagkerfið, meta allar aðgerðir ríkisins og útgjöld þess út frá umhverfis- og loftslagsmálum, svo fátt eitt sé nefnt.
Núverandi stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% til ársins 2030. Það er verðugt markmið, en þó er ekki ljóst hvort hugur fylgi máli. Svo mikið er víst að tillaga Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um lögfestingu slíks markmiðs var felld með atkvæðum stjórnarmeirihlutans og með dyggri aðstoð Miðflokksins þann 12. júní sl. Þarna fór því ekki saman hljóð og mynd, eins og stundum áður. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart, enda liggur það fyrir að núgildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum gerir einungis ráð fyrir 40% samdrætti til 2030.
Baráttan gegn hlýnun loftslags er ekki bara langhlaup, eins og stundum hefur verið sagt. Það ríkir neyðarástand - núna. Við þurfum að bregðast við því - núna. Það þýðir þó ekki að því fylgi endalausar fórnir og volæði, þvert á móti eru tækifærin í grænum lausnum óendanleg. Íslendingar eru í kjörstöðu til að taka forystu á þessu sviði, sem mun varða leiðina í atvinnu- og verðmætasköpun næstu áratugina. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja, fái ég til þess brautargengi í komandi Alþingiskosningum.
Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.