Bakþankar: Tíminn og afi

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Það var fyrir nokkrum árum að við fjölskyldan vorum á leið heim úr ferðalagi. Ég man ekki nákvæmlega hvar við höfðum verið eða hversu lengi. En þó greinilega nógu lengi til þess að þegar í heimreiðina kom gaf ég frá mér djúpt andvarp og sagði hátt og skýrt „Ahhh, heima er best.“
Tilfinningin að koma heim var alveg einstök í þetta skipti man ég, blanda af feginleika, eftirvæntingu og þakklæti.
Nema hvað, í aftursætinu situr (þá 6 ára) dóttir mín og heyrist í henni: „Mamma, hvað þýðir eiginlega þetta heima er best?“

Nú, ekki þótti mér erfitt að útskýra það og sagði eitthvað á þá leið að eftir löng ferðalög fyndi maður hversu gott væri að koma heim til sín, vera heima hjá sér og eiga gott heimili. Það væri eiginlega bara best að vera heima, en stundum þyrfti maður að fara að heiman til að minna sig á það. 

„Jáááá, ég skil.“ Segir sú stutta. 
En bætti svo við eftir smá umhugsun, „En mamma, það er ekki best að vera heima. Það er best að vera hjá afa.“

Ég rifja oft upp þetta atvik og man ennþá enlægnina sem fylgdi þessum orðum dóttur minnar. Henni fannst einfaldega best að vera hjá afa sínum og orðatiltækið hefði í hennar huga hljómað Hjá afa er best.

Hjá afa var nefninlega öryggið og gleðin, ósvikin athygli og allur heimsins tími: Tími til að leika, til að spila, til að hlusta og til að fá sér súkkulaðirúsínur. Það var alltaf tími til alls. Þar voru engin snjalltæki sem stálu athygli og útvarpið var bara stillt lágt, nema auðvitað ef afabörnin óskuðu annars.
Eftir að við misstum afa/pabba, hef ég reynt að tileinka mér afa-gjafirnar. Og það verður mér alltaf ljósara að það mikilvægasta sem afi átti var líðandi stund. Hér og nú.

- Huld Hafliðadóttir

Nýjast